131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:57]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þykir tilhlýðilegt að hæstv. heilbrigðisráðherra Jón Kristjánsson fái að afneita þrisvar því samkomulagi sem hann og hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson gerðu við Öryrkjabandalagið fyrir hönd örorkulífeyrisþega í landinu.

Hæstv. heilbrigðisráðherra sagði sjálfur í þessum ræðustól í orðaskiptum við mig fyrir ári síðan að ekki yrði unnt að efna innihald samkomulagsins að fullu í fjárlögum fyrir árið 2004 heldur yrði að áfangaskipta efndunum og mundi vanta upp á 500 millj. kr. Núna segir hæstv. ráðherra að það hafi ekki verið neinn síðari áfangi og engar 500 millj. kr. Það er óhjákvæmilegt að hæstv. heilbrigðisráðherra geri grein fyrir hvernig þessu víkur við. Og það er rétt að minna hæstv. heilbrigðisráðherra á að honum ber að segja þinginu satt og rétt frá í þessum ræðustól og þessar tvær sögur ganga ekki heim og saman því það getur ekki bæði verið síðari áfangi með 500 millj. eins og ráðherrann sagði í þessum stól í fyrra og ekki verið síðari áfangi með 500 millj. eins og ráðherrann segir í sama stól núna.