131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Norsk-íslenski síldarstofninn.

[15:17]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. sjávarútvegsráðherra af því ánægjulega tilefni að sterkar vísbendingar og í einu tilviki væntanlega sönnun liggja fyrir um það að norsk-íslenska síldin veiðist innan íslensku sérefnahagslögsögunnar austur af landinu. Farmur úr Hoffellinu var greindur og virtist óumdeilanlega vera um síld af norsk-íslenska stofninum að ræða. Sömuleiðis hefur Víkingur landað á Vopnafirði einum 1.400 tonnum í 4–5 veiðiferðum og sterkar vísbendingar eru um að þar sé sömuleiðis um síld af sama stofni að ræða, stóra, feita og fallega með 19% fituinnihaldi og þó nokkru af hrognum og sviljum í sem passar prýðilega við ástand og ásigkomulag norsk-íslensku síldarinnar eins og það á að vera á þessum árstíma, en stemmir illa við þá íslensku.

Þetta vekur spurningar um hvort ekki sé mikilvægt að rannsaka og greina það sem hér er á ferðinni ekki síst vegna mikilvægra samningshagsmuna okkar, að geta sýnt fram á að síldin innan íslensku sérefnahagslögsögunnar sé veiðanleg. Það mundi styrkja mjög aðstæður okkar í samningaviðræðum við Norðmenn og aðra um stofninn.

Ég vil því spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort Hafrannsóknastofnun verði tryggt fjármagn til þess að gera út sérstakan rannsóknarleiðangur til að taka sýni, greina og mæla það síldarmagn sem hér er á ferðinni eða með einhverjum öðrum aðferðum eins og að senda vísindamenn með veiðiskipum til að það fáist á hreint hvað þarna er á ferðinni. Það er líka ákaflega mikilvægt til að átta sig á því sem er að gerast í vistkerfinu og vegna fiskveiðistjórnar að ekki sé vafi á úr hvorum stofninum veiðin er, þeim norsk-íslenska eða íslenska, að þessir hlutir fáist á hreint og ekki við það unandi að fjárleysi hamli Hafrannsóknastofnun í þessu efni.