131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Landssíminn.

[15:26]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég hefði talið eðlilegt að ganga úr skugga um það en í svarinu kemur fram að ráðuneytinu er ekki kunnugt um að Póst- og fjarskiptastofnun hafi farið fram á það við Landssímann að hann viðhefði fjárhagslegan aðskilnað í umræddri starfsemi. En nú segir óvart í reglugerð að fyrirtæki sem hafa umtalsverða markaðshlutdeild á ákveðnu sviði almennrar fjarskiptaþjónustu eða almennra fjarskiptaneta skuli aðgreina kostnað í bókhaldi í samræmi við reglugerðina. Þess vegna hefði ég talið eðlilegt að hæstv. ráðherra gengi úr skugga um að svo væri.

Ef eitthvert vit á að vera í fyrirspurnum ætti hæstv. ráðherra að leitast við að svara þeim þannig að það þurfi ekki að vera að spyrja aftur og aftur og fá svör sem segja ekki neitt.