131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Verkfall kennara og stofnun Hávallaskóla.

[15:27]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í dag hefst fjórða vika kennaraverkfalls grunnskólakennara og í dag hafa farið forgörðum yfir 700 þús. skóladagar hjá grunnskólabörnum landsins. Í gær var fundi deiluaðila frestað en ríkissáttasemjari mun eins og kunnugt er kanna stöðu mála og gera tilraun til að kalla deiluaðila aftur saman á miðvikudaginn. Meðal annars vegna þess að ríkisvaldið gaf á sínum tíma tóninn um kjör viðmiðunarstétta grunnskólakennara sem færðu þeim stéttum, hjúkrunarfræðingum og framhaldsskólakennurum, réttlátar kjarabætur hefur öllum verið ljóst að grunnskólakennarar bæði yrðu og mundu fylgja í kjölfarið. Því beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra hvort hún muni, m.a. í ljósi þess í hve alvarlegri stöðu deilan er í einmitt í dag og í hve miklu uppnámi lögbundin menntun barna landsins er, beita sér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að stjórnvöld komi með einhverjum hætti að deilunni og þá hvernig.

Einnig vil ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra, þar sem að í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins var sagt frá stofnun og starfrækslu nýs einkarekins grunnskóla, Hávallaskóla, hjá Haraldi Ólafssyni nokkrum, hvort hún þekki til málsins. Hefur ráðuneytið gefið út starfsleyfi eða staðfestingu á starfi slíks skóla? Það hlýtur að vekja upp ýmsar spurningar nú þegar svo viðkvæm kjaradeila stendur yfir sem deila kennara er og gæti túlkast sem stríðsyfirlýsing í miðri deilunni við kennarana að gefa út starfsleyfi á starfrækslu slíks skóla. En þar sem fáir virðast kannast við tilurð og starf þessa skóla sem varið var löngum tíma í í hádegisfréttum útvarps, var fyrsta frétt með löngu viðtali við skólastjórann og eigandann, Harald Ólafsson, vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hún þekki til málsins og hvort ráðuneytið hafi með einhverjum hætti komið að málinu.