131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Verkfall kennara og stofnun Hávallaskóla.

[15:34]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er einmitt þess vegna sem deilan leysist ekki. Það er vegna tekjuskiptingar ríkis og sveitarfélaganna sem sveitarfélögunum er ekki kleift að leysa þessa deilu. Þess vegna eru málin í þeim alvarlega hnút sem þau eru. Það er ástæða til að skora á hæstv. menntamálaráðherra og spyrja hana hvort hún hafi tekið þetta mál upp í ríkisstjórninni, þ.e. tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, og beitt sér fyrir því að það verði leitt til lykta þannig að við sjáum ekki holskeflu slíkra kjaradeilna fram undan eins og við höfum þurft að horfa upp á síðustu vikurnar með þeim hörmulegu afleiðingum, eins og ég sagði áðan, að yfir 700 þúsund skóladagar hafa farið forgörðum. Ef það er ekki grafalvarlegt pólitískt mál, grafalvarleg staðreynd, virðulegi forseti, þá veit ég ekki hvaða mál verðskulda umræður á hinu háa Alþingi. Grunnskólabörn landsins sjá núna fram á það að þurfa að sitja heima fjórðu vinnuvikuna í röð af því að ekki hefur verið boðað til nýs fundar fyrr en á miðvikudag. Því er ljóst að þessi vika er farin forgörðum líka.