131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Skipun nýs hæstaréttardómara.

[15:56]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Eitt er hægt að segja um þá tvo karlmenn sem hafa fengið það hlutverk í tvö síðustu skipti að skipa hæstaréttardómara í Hæstarétt Íslands. Þeir eru báðir börn síns tíma, þeirrar kynslóðar er alltaf hefur séð um sína og séð um strákana.

Þeir hafa kannski ekki athugað, þessir hæstv. ráðherrar, að hér á landi hafa verið í gildi jafnréttislög í hartnær 30 ár. Hér á landi er líka í gildi jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar og það er meira að segja tekið fram í auglýsingu um nýjan hæstaréttardómara að sérstaklega sé tekið tillit til þess að fjölga þurfi konum þar í stöðum hjá ríkinu sem konur eru færri en karlar, í þeim stéttum og í þeim embættum. En það skiptir bara engu máli, hæstv. forseti. Þegar strákarnir þurfa að sjá um sína skiptir ekki máli þótt hæfar konur sæki um.

Maður spyr því hér á því herrans ári 2004 hvort það sé til einskis sem íslenskar konur mennta sig og eru að verða best menntuðu konur í heimi, hvort það sé til einskis að afla sér réttinda á vinnumarkaði þegar þessir menn eru við völd. Skilaboðin til kvenna eru alveg skýr: Vertu ekkert að sækja um, góða mín. Þú verður að hafa flokksskírteini, þú verður að þekkja réttu karlana og biddu fyrir þér, þó að þú sért hæf verður leikreglunum bara breytt.