131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[16:13]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og sá sem hér talar flytjum tillögu um breytingu á lögum um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf. Frumvarpsgreinin miðar að því að söluferli Landssímans verði stöðvað, ríkið haldi óskertum hlut sínum í fyrirtækinu, a.m.k. fyrst um sinn, þótt við séum reyndar þeirrar skoðunar að Landssíminn eigi áfram að vera í höndum ríkisins, eigi að vera í eigu þjóðarinnar. Við leggjum til að fyrst um sinn verði a.m.k. horfið frá söluferlinu og tíminn verði notaður til þess að gera sérstakt átak til að bæta fjarskipti og gagnaflutningakerfi landsins með það að markmiði, eins og segir í tillögunni, „að allir landsmenn, án tillits til búsetu, eigi kost á nýjustu og fullkomnustu tækni á þessu sviði. Heimilt er að lækka eða fella niður arðgreiðslur í ríkissjóð á móti þeim fjárfestingum fyrirtækisins í þessu skyni sem síst eru arðbærar, samkvæmt nánari reglum er fjármálaráðherra setur“.

Það er boðað að einkavæðing og sala á Landssíma Íslands sé á næsta leiti og hafin er undirbúningsvinna í einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar til að undirbúa söluna. Það er rétt að hafa í huga í þessu sambandi að einkavæðingarnefnd og framkvæmd á undirbúningi og sölu Landssímans er nú á ábyrgð ráðherra Framsóknarflokksins, hæstv. forsætisráðherra Halldórs Ásgrímssonar.

Það er líka athyglisvert og ætti að vera umhugsunarefni fyrir Framsóknarflokkinn sem nú fer með söluferlið að í skoðanakönnun sem gerð var fyrir tæpum tveimur árum um afstöðu fólks til sölu Landssímans kom greinilega fram að góður meiri hluti þjóðarinnar vill að Síminn verði áfram í opinberri eigu og að hlutfall þeirra sem það vilja er langhæst á landsbyggðinni. Það þarf ekki að koma á óvart. Yfir 70% af íbúum landsbyggðarinnar vilja að Síminn sé áfram í opinberri eigu. Þegar litið er til þess í skoðanakönnuninni sem var mjög ítarleg, þ.e. hvernig hún deilist niður á einstaka stjórnmálaflokka, kom í ljós að 64% af kjósendum Framsóknarflokksins sem spurðir voru í könnuninni vilja að Síminn verði áfram í opinberri eigu. Reyndar vilja það einnig 64% af kjósendum Samfylkingarinnar en 80% af kjósendum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Lægstur var hluturinn hjá Sjálfstæðisflokknum, 44%. Engu að síður var mikill meiri hluti, þ.e. nærri 60%, sem vildi í heild sinni að Síminn yrði áfram í opinberri eigu.

Þetta ætti að vera drjúgt og öruggt veganesti til Framsóknarflokksins sem nú fer með formennskuna í einkavæðingarnefnd, og þar af leiðandi líka söluferli Landssímans, um það hver vilji kjósenda þeirra er til þessa máls, a.m.k. samkvæmt þeirri vísbendingu sem Gallup-könnunin gerði grein fyrir.

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs telur engin haldbær rök fyrir einkavæðingu Símans og telur hann áfram best kominn sem öflugt almannaþjónustufyrirtæki í opinberri eigu. Því er þess vegna enn freistað að hafa áhrif á málið með því að leggja til að horfið verði frá hugmyndum um sölu, a.m.k. þá til ársloka 2008 eins og hér er lagt til. Með því gæfist ráðrúm til að skoða málin, meta reynslu annarra þjóða af einkavæðingu fjarskipta og síðast en ekki síst nota tímann vel til að bæta fjarskiptakerfið. Framhald málsins verður svo í höndum þess löggjafar- og framkvæmdarvalds sem með málið fer þegar þar að kemur.

Það er von flutningsmanna að sú leið sem frumvarpið felur í sér fáist tekin til alvarlegrar skoðunar, ekki síst í því skyni að ná lágmarkssáttum um meðferð þessa umdeilda máls. Í ljósi óumdeilds mikilvægis fjarskipta og gagnaflutninga í nútímasamfélagi verður að gera kröfu um ýtrustu gát. Má í því sambandi benda á að hægri stjórnin í Noregi hefur farið sér mjög hægt í því að minnka í áföngum eignarhald ríkisins í norska símanum.

Ekki er annað vitað hér, a.m.k. ef marka má þá umræðu sem var á haustdögum, en að ætlunin sé að afhenda Símann meira eða minna í heilu lagi, eða a.m.k. ráðandi hlut í honum, til svokallaðra kjölfestufjárfesta. Það er þó mjög erfitt að henda reiður á hver aðferðafræði ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á að vera í einkavæðingarmálum því oft er skipt um aðferð hverju sinni. Þannig var dreifð eignaraðild einu sinni sögð keppikefli en hvarf síðan út úr myndinni og í staðinn kom ofuráhersla á svokallaða kjölfestufjárfesta.

Síðan kemur líka það til hvaða vinir einstakra stjórnmálaflokka, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, eiga að fá viðkomandi eign hverju sinni. Það getur ráðist af geðþóttaákvörðunum.

Það er mikil óánægja í samfélaginu með margar þær breytingar sem hafa orðið á einkavæðingu öflugra ríkisfyrirtækja. Almenningi blöskrar samþjöppun valds og auðs í kjölfar markaðs- og einkavæðingar sem einnig orsakar minna aðhald og lakari aðkomu almennings að ákvörðun um mikilvæg hagsmunamál í samfélaginu. Meira að segja ýmsir ráðherrar í núverandi ríkisstjórn hafa hrifist með óánægjubylgjunni og látið ummæli falla um skerta þjónustu í kjölfar einkavæðingar ríkisfyrirtækja eða lýst yfir áhyggjum af græðgisvæðingu samfélagsins og samþjöppun auðs og valds. Gerir það áform um einkavæðingu Símans enn óskiljanlegri en ella.

Ég trúi því ekki, herra forseti, að það sé vilji þjóðarinnar — reyndar alls ekki — að Landssíminn verði seldur með þeim hætti að hann síðan fari á braskferð og geti endað í megindráttum, kannski erlendis, í búlgarska símanum eða annars staðar. Ég trúi því ekki að sá sé vilji íslensku þjóðarinnar.

Það eru gríðarlega mörg verkefni sem brýnt er að ráðast í á næstu árum, hafa reyndar verið mjög vanrækt á undanförnum árum. Þar má t.d. nefna uppbyggingu á fjarskipta- og gagnaflutningsmöguleikum um allt land og það að tryggja aðgang allra landsmanna að GSM-kerfinu. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa flutt tillögur um hvort tveggja. Er þar gert ráð fyrir að t.d. arðgreiðslur úr ríkissjóði verði lækkaðar á meðan Síminn vinni að þeim verkefnum. Með þessu er að sjálfsögðu ekki allt talið upp sem fram undan er á þessu sviði. Svonefnd þriðja kynslóð farsíma er að halda innreið sína og fram undan eru miklar fjárfestingar á vegum fjarskiptafyrirtækja við að byggja upp þá þjónustu.

Einnig er mikilvægt að hafa í huga að kröfur til fjarskiptaþjónustunnar fara sívaxandi og þróunin er hröð hvað nýja og afkastameiri tækni varðar. Það er því mjög mikilvægt að við höfum slíkt opinbert fyrirtæki sem tryggi einnig framþróun í gagnaflutningum og tækni hvað það varðar að hún berist til allra landsmanna.

Við höfum á undanförnum árum horft upp á, t.d. varðandi GSM-símaþjónustuna sem menn telja að sé á samkeppnismarkaði, að þau tvö aðalfyrirtæki sem eru á fjarskiptamarkaðnum hafa keppst um að setja upp hvort sína eigin fjarskiptasenda hér á suðvesturhorninu þar sem þeir meina að samkeppnin sé. Á meginhluta landsins, í dreifbýlinu, á þjóðvegunum, þar sem ekki er samkeppni og ekki arðbært að mati þessara fyrirtækja er ekkert gert. Svona þjónusta gengur ekki upp. Þess vegna krefjast landsmenn jafnaðar hvað þessa fjarskiptaþjónustu varðar.

Ég hef hér undir höndum ótal ályktanir, yfirlýsingar, kröfur og óskir frá sveitarfélögum, frá samtökum sveitarfélaga, frá hinum ýmsu félagasamtökum og hagsmunaaðilum, frá ferðaþjónustunni hringinn í kringum landið þar sem þess er krafist að fjarskiptaþjónustan verði bætt. Menn vilja fá GSM-símaþjónustu, meira öryggi í fjarskiptum á þjóðvegum landsins og annars staðar í byggð. Allar þessar ályktanir og óskir liggja hér fyrir. Það er þetta sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði teljum að eigi að vera forgangsverkefni og forgangsatriði.

Það er ekki sem Síminn sé baggi á þjóðinni, síður en svo. Bara í ár er gert ráð fyrir því að hann greiði í arð til ríkisins meira en 2 milljarða kr. og er þó hagnaðurinn á árinu talinn einhvers staðar í kringum 7 milljarða kr. Þarna er aldeilis nægt fjármagn á ferð þannig að það er ekki mikill baggi fyrir þjóðina að eiga slíka gullkú. Þess vegna er enn frekar ástæða til þess að við hættum nú við öll áform um sölu Landssímans í bili og einhendum okkur í að beita styrk hans til þess að efla fjarskiptin um allt land.

Herra forseti. Það er líka vert að huga að því hvernig menn ætla að selja ef út í þá vitleysu verður farið. Við heyrum að hér er verið að flytja hverja tillöguna á fætur annarri eða heyrum umræður um að nota eigi andvirði sölu Landssímans til að gera þetta eða hitt. Í gær kom fram tillaga um að nota fjármunina til að lækka gjaldið í Hvalfjarðargöngum. Við höfum heyrt aðra tillögu um að nota eigi söluandvirði Landssímans til þess að byggja menningarhús. Ein tillagan er að það eigi að byggja jarðgöng. Enn önnur tillaga er um að lækka skuldir ríkissjóðs. Drottinn minn dýri, það eru svo mörg eiginleg verkefni ríkisins sem hægt er að skjóta sér á bak við með því að selja Landssímann.

Horfum á þessa 2 milljarða, 2–3 milljarða sem hann skilar í arð á ári. Er það ekki fjármagn sem hægt væri að nota til þeirra hluta sem hafa verið nefndir ef út í það væri farið?

Nei, herra forseti. Það er virkilega þjóðhagslega hagkvæmt fyrir þjóðina að eiga Landssímann, eiga þetta sterka fyrirtæki, beita afli þess, beita fjármunum Landssímans til að efla fjarskiptakerfið um allt land. Það eigum við að gera, hætta við allar hugmyndir um sölu Landssímans og einhenda okkur í þetta verk.