131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[16:43]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon brást hér við með því að segja að fyrst hefði ríkisstjórnin ákveðið að selja Símann og spyrja svo hverjar afleiðingarnar yrðu. Ég fór mjög vel yfir það í ræðu minni áðan hver skilyrðin fyrir sölu af hálfu þingflokks Framsóknarflokksins eru gagnvart sölu Símans.

Okkur greinir hins vegar á um það, og við getum þá verið sammála um að vera ósammála um, að ríkið á ekki að standa í samkeppni gagnvart 30–40 einkafyrirtækjum á þessum markaði. Okkur greinir á í þeim efnum rétt eins og okkur greindi á varðandi sölu á ríkisbönkunum.

Það sér sennilega hver maður hver niðurstaðan af þeirri einkavæðingu hefur orðið, þó umdeild hafi verið innan Framsóknarflokksins á sínum tíma. Það er sama hvað menn segja, það er mikil samkeppni á bankamarkaði í dag.

Ég vil sjá, svo ég tali persónulega, ég ætla ekki að úttala mig um málið, en ég mundi gjarnan vilja sjá að við sölu Símans yrði tekið frá eitthvert fé, þar sem einkaaðilar á þessum markaði, tugir fyrirtækja, gætu líka tekið þátt í útboði til þess að bæta þjónustu við íbúa landsbyggðarinnar hvað varðar GSM-dreifikerfið eða háhraðatengingar almennt. Ég tel það ekki fráleitt. Gott væri að heyra viðbrögð hv. þm. hvað það varðar.

Annað varðandi grunnnet Símans. Það er alveg ljóst að samkvæmt fjarskiptalögum munu allir eiga aðgang að grunnnetinu. Þegar menn tala um þriðju kynslóð farsíma og annað slíkt þá er alveg ljóst að við munum aldrei klára það verkefni að byggja upp dreifikerfið eða svara kalli tímans. Ég held að það sé alveg ljóst. Það er hlutverk okkar stjórnmálamanna í framtíðinni að reyna að bregðast við því þegar þar að kemur.