131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[16:46]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að oft sé gott til glöggvunar afstöðu manna til mála af þessu tagi að menn byrja á því að leggja hlutina niður fyrir sér hvers eðlis þau fyrirbæri eru sem menn fjalla um. Spurningin hér er fyrst og fremst um það. Er þetta þjónusta? Er þetta mikilvæg undirstaða í samfélagi okkar sem allir eiga að hafa jafnan aðgang að eða er þetta bisness?

Mér heyrist hv. þm. Birkir Jón Jónsson vera á ákaflega háskalegum brautum í því hvernig hann grautar þessu tvennu saman. Öðrum þræði notar hann frjálshyggjurökin. Ríkið á ekki að vera að þvælast í samkeppni við 30–40 aðila sem eru nú að vísu ekki allir stórir í þessu dæmi. Hins vegar rifjar hann svo upp gamlar og því miður að mestu leyti gleymdar ræður framsóknarmanna um hvað þeir séu nú þrátt fyrir allt miklir félagshyggjumenn og miklir byggðajöfnunarsinnar. Ég taldi upp hin hefðbundnu frjálshyggjurök, að ríkið eigi ekki að vera að þvælast þarna í samkeppni. Þetta er ekki venjulegur bisness, hv. þm. Birkir Jón Jónsson. Þetta er ein mikilvægasta undirstaða þess að menn geti verið fullgildir þátttakendur í upplýsingasamfélagi nútímans og framtíðarinnar. Það er hárrétt að menn leysa þetta mál ekki bara í eitt skipti fyrir öll með einhverjum framkvæmdum núna. Það þarf að tryggja það að allir landsmenn standi jafnt að vígi gagnvart þróuninni inn í framtíðina. Hvernig í ósköpunum á að gera það og tryggja að þar verði félags- og byggðarleg sjónarmið að einhverju leyti í heiðri höfð, en ekki bara arðsemin?

Hv. þm. gagnrýnir Símann og segir að hann hefði getað staðið sig betur í uppbyggingu á undanförnum missirum. Gott og vel. Hvers vegna hefur hann ekki staðið betur en raun ber vitni undanfarin ár? Jú, það er vegna þess að hann hefur tekið að skilgreina sig sem einkafyrirtæki, sem bisness og horfið frá þeirri hugsun sem áður var þar við lýði að hann væri almenningsþjónustufyrirtæki sem hefði skyldum að gegna við alla landsmenn. Heldur þá hv. þm. að lausnin sé sú að fara alveg yfir og einka- og markaðsvæða það að fullu? Ég segi: Það sem er að í Símanum undanfarin missiri er að hann er horfinn of langt frá hinni gömlu góðu grundvallarhugsun um að hann væri þjónustufyrirtæki allra landsmanna. Hann er orðinn of markaðs- og (Forseti hringir.) einkavæddur nú þegar. Lausnin er þá ekki að ganga alla leið í þeim efnum.