131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[17:06]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Spunnist hafa nokkrar umræður um málið og ýmislegt hefur fallið í þessum ræðustól. Það eru margar hliðar á málinu og ýmis sjónarmið hafa komið fram hjá hv. þm. Ég held hins vegar að það fari ekkert á milli mála fyrir þá sem hugleiða málið í alvöru að nauðsynlegt er að staldra við og skoða það á nýjan leik. Ég lít svo á að sú tillaga sem við ræðum og flutt er af tveimur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sé tilraun til þess að taka málið niður, eins og sagt er, og skoða hvar við erum stödd og reyna að fá í það lendingu sem gæti ef til vill verið ásættanleg.

Sá sem hér stendur er þeirrar skoðunar að best væri að dreifikerfið yrði ekki selt með Símanum og að um það væri stofnað sérstakt fyrirtæki sem mundi efla dreifikerfið, halda því við og tryggja að öll þau fyrirtæki sem starfa á markaði sem getur nýtt dreifikerfið um landið hafi aðgang að því á jafnræðisgrundvelli. Þannig verði samkeppni tryggð, annars vegar á milli símafyrirtækja og í framtíðinni á milli ýmissa fyrirtækja sem veita þjónustu um ljósleiðara, jafnvel á dreifingu á útvarps- og sjónvarpsefni. Sú aðferð var valin í sambandi við breytingu á raforkukerfinu að setja dreifikerfið í sérfyrirtæki og ég tel að það hefði einnig átt að gera þegar menn hugleiða sölu Símans.

Það hefur verið talað um það af stjórnarliðum að stjórnarandstaðan legðist ævinlega gegn allri einkavæðingu og öllum breytingum. Ég tel að menn fari þar ekki með rétt mál. Hins vegar er mjög mikilvægt, og um það held ég að þingmenn stjórnarflokkanna geti verið sammála, að tryggja eðlilega samkeppni. Að minnsta kosti hefur umræðan m.a. um bankakerfið og ýmis önnur viðskiptamál hér á landi snúist um að hér verði að vera eðlileg samkeppni. Menn hafa verið að hæla sér af því að eftir einkavæðingu bankanna m.a. væri loksins að koma upp eðlilegt samkeppnisumhverfi í lánaviðskiptum hér á landi og að samkeppnin tryggði það. Undir það má vissulega taka að mörgu leyti. Við höfum öfluga bankastarfsemi af einkavæddum bönkum og neytendur eru vonandi farnir að sjá í aukinni samkeppni eitthvað sem þjónar hagsmunum þeirra í betri lánafyrirgreiðslu og lækkandi vöxtum og er það vel.

Ég held, virðulegur forseti, að það væri mjög eðlilegt að menn stöldruðu við varðandi dreifingarkerfið og mótuðu þá stefnu að það væri ekki selt og jafnframt að tryggðir verði fjármunir til þess að byggja kerfið upp og gera það þannig úr garði að það þjónaði jafnt til sjávar og sveita, á þjóðvegum landsins o.s.frv. Það sem mér finnst meginmarkmið í þeirri hugsun þegar við tölum um aðgang að fjarskiptaþjónustu almennt er að landsmönnum verði í framtíðinni boðið upp á að sitja við sama borð.

Þar af leiðandi get ég sagt að ef um tillöguna næðist sá flötur að fresta sölunni í heilu lagi mundi ég ekki gera ágreining um það. Ég hef hins vegar talið að meginmálið í að tryggja samkeppni til framtíðar lægi í því að dreifikerfið yrði byggt upp og öllum fyrirtækjum væri gerður jafn aðgangur að dreifikerfinu. Það held ég að sé algjörlega nauðsynlegt og hagkvæmt fyrir íslenska þjóð. Ég held að til framtíðar litið, þó svo mönnum tækist að byggja upp dreifikerfi hér á landi sem fyrir stæðu ýmis einkarekin fyrirtæki og tækist á næstu árum að koma slíku dreifikerfi á sem ýmsir ættu, er ég alveg viss um að það yrði dýrara og við hljótum líka að þurfa að horfa til þess. Hverjir borga fyrir mörg dreifikerfi ef það yrði niðurstaðan? Það eru neytendur, það fer ekkert á milli mála.

Ég dreg því mjög í efa að við næðum út úr því bestu hagkvæmni fyrir neytendur landsins að byggja upp mörg dreifikerfi því sá kostnaður yrði alltaf greiddur af notendunum og þeir fjármunir sem festir yrðu í að byggja upp margar dreifistöðvar og mörg dreifikerfi af ýmsum toga, jafnvel þó ný tækni hefji innreið sína og lækki kostnað, ættu að gera það í einu fyrirtæki. Þegar maður leggur þetta saman og veltir þessu fyrir sér getur maður ekki komist að annarri niðurstöðu en að það hljóti að vera hagkvæmara fyrir íslensku þjóðina að eiga og viðhalda dreifikerfinu og tryggja að öll fyrirtæki sem starfa á þessu sviði eigi aðgang á jafnréttisgrundvelli og keppist um að veita þjónustu með sitt efni, þegar um það er að ræða, og með viðskiptaform sitt og hagkvæmni í rekstri, þegar um það er að ræða, en eigi aðgang að einu dreifikerfi.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að reyna að reisa neinn ágreining um það hvort slíkt fyrirtæki skuli vera bein ríkiseign eða einkafyrirtæki sem ríkið eigi að öllu leyti, en ég held að þannig fyrirkomulag þurfi að vera á þessu meðan verið er að tryggja uppbyggingu dreifikerfisins. Ég er alveg sannfærður um að ef við gerum það ekki muni, þegar upp verður staðið, kostnaðurinn fyrir neytendur verða meiri en ella. Þess vegna tel ég mjög nauðsynlegt að huga að því að við stígum ekki þau skref að fara í þá einkavæðingu sem verið er að boða og við ræðum með tillögunni sem hér er flutt fram í frumvarpsformi af Vinstri grænum, að það verði ekki stigið það skref að selja Símann í heilu lagi ásamt dreifikerfinu.

Ég held að hv. þm. Birkir J. Jónsson hafi nefnt það í ræðustól áðan að ef menn ætluðu að einkavæða þetta þá yrði a.m.k. að taka frá fjármuni til að tryggja að kerfið yrði þannig byggt upp að allir sætu við sama borð. Ég held að niðurstaðan sé einfaldlega sú að best sé að geyma sér það að einkavæða og ljúka því að byggja dreifikerfið upp án þess að fara í að selja eins og ríkisstjórnin vill gera, í heilu lagi með því að selja bæði þjónustuna og dreifikerfið. Það er niðurstaða mín í málinu.

Ég held að á undanförnum mánuðum og missirum hafi mörgum landsmönnum orðið það æ ljósara að ekki ætti að selja dreifikerfi Símans. Menn hafa iðulega líkt dreifikerfi Símans við vegakerfið okkar. Það er ágæt samlíking. Við teljum að ríkið eigi að standa fyrir því að leggja vegi og tryggja á sem bestan máta að landsmenn fái betra vegakerfi og sitji við sama borð að því leyti eins og hægt er. Ég held að það sama eigi við varðandi dreifikerfi Símans. Við þurfum að tryggja að menn sitji við sama borð.

Ég sat nýlega fjórðungsþing Vestfirðinga á Ísafirði. Þar voru menn m.a. að ræða tillögur um dreifikerfi Símans, GSM-netsins o.s.frv. Þar á þinginu kom fram tillaga um dreifikerfið eftir að menn höfðu rætt um einkavæðingu Símans. Það var ekki ómerkari maður en Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði, sem flutti þá tillögu. Hún var samþykkt samhljóða á þinginu og ég held að ég verði að fá leyfi hæstv. forseta til að lesa þá ályktun þingsins, hún er innlegg í málið. Hún hljóðar svona:

„49. Fjórðungsþing Vestfirðinga, haldið á Ísafirði 3.–4. september 2004, ítrekar fyrri ályktanir um þéttingu GSM-sambands á þjóðvegum á milli þéttbýliskjarna og á fjölförnum leiðum. Með uppsetningu á nokkrum GSM-sendum á Vestfjörðum er hægt að koma á samfelldu GSM-sambandi. Aukinn fjöldi ferðamanna á svæðinu kallar á betri þjónustu, en krafa nútímans er að vera í GSM-sambandi sem víðast.

Brýnt er að tryggja þjónustu við landsbyggðina og ferðamenn, innlenda sem erlenda ekki síst í ljósi þess að nú hillir undir sölu á Símanum. Vegna þess er mikilvægt að skoða hvort ekki eigi að undanskilja dreifikerfið, í sambærilegu fyrirtæki og Landsnet er fyrir raforkugeirann þar til bætt hefur verið úr aðgengi hinna dreifðu byggða að öflugri gagnaflutningi.“

Þetta var þessi ályktun, virðulegi forseti, og með henni fylgdi svofelld áskorun, með leyfi forseta:

„49. Fjórðungsþing Vestfirðinga skorar á samgönguráðherra að hann beiti sér fyrir því að hluta af hagnaði af sölu Símans verði varið til frekari uppbyggingar GSM-kerfisins.“

Þetta hafa menn verið að ræða í tengslum við þessa tillögu, virðulegi forseti. Síðan langar mig að vitna í eitt af mörgum erindum sem bárust inn í fjárlaganefnd frá ýmsum sveitarstjórnum. Þær nefndu einmitt dreifikerfið og framtíð fjarskipta á landinu. Sá pappír sem ég ætla að vitna í er erindi frá Þingeyjarsveit. Um fjarskiptin segir þar, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórnin hefur vonda reynslu af markaðsvæðingu á fjarskiptamálum og hefur verulegar áhyggjur af sölu Símans og þeirri þróun sem orðið hefur á þeim vettvangi undanfarið. Þar má t.d. nefna að samfélagið nýtur almennt ekki góðs af tengingum sem Síminn hefur lagt, m.a. fyrir ríkissjóð, FS-netið, sem tengir m.a. framhaldsskóla góðri gagnaflutningatengingu. Þannig liggja tækifærin fyrir fótum okkar en við megum ekki nota þau af því að við erum ekki nógu fjölmennt markaðssvæði. Markaðsvæðingin á augljóslega ekki við um allt landið. Því verður ríkisvaldið að gera öllum íbúum landsins kleift að nýta þau tækifæri sem þó eru fyrir hendi og skapa ný.“

Þetta var ályktun þeirra í Þingeyjarsveit um dreifikerfið. Ég held að það fari ekkert á milli mála, hæstv. forseti, að eftir því sem menn ræða þetta meira óttast þeir meira að landsbyggðin sitji ekki við sama borð að þessu leyti. Þess vegna er eðlilegt að menn staldri við og fari í smærri skrefum þá leið sem ríkisstjórnin ráðgerir. Ég held að það væri vel til fundið að menn hugsuðu sig vandlega um hvort við séum að stíga rétt skref með því að fara í þetta allsherjarsöluferli á Símanum í einu lagi. Ég tek undir það sem komið hefur fram í máli manna, m.a. því sem ég hef vitnað í, að vert sé að óttast að niðurstaðan verði sú að við sem búum úti á landi munum ekki sitja við sama borð þegar kemur að fjarskiptum.

Við í Frjálslynda flokknum tökum eindregið undir það að menn hugsi sig betur um. Ef þessi tillaga um það að fresta sölu Símans til 2008 er liður í því þá getum við tekið undir hana. Við teljum að fyrst og fremst þurfi að skoða dreifikerfið og það að tryggja öllum jafna samkeppnisstöðu á þessum markaði um leið og landsmenn njóti sömu þjónustu. Það hlýtur einnig að vera mikilvægt að sá kostnaður sem við leggjum í sé ekki meiri en þörf er á til að tryggja þessi markmið. Ég tel að ef fjöldamörg fyrirtæki fara hvert fyrir sig að búa til dreifikerfi verði það neytandinn sem að lokum þarf að borga þann kostnað.