131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[17:45]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að ýmsir höfðu hag af því að bankarnir voru seldir. En ég á eftir að samþykkja að það hafi verið þjóðin sem hafi hagnast á því fyrst og fremst, enda eru þar ekki öll kurl komin til grafar.

Þeir sem högnuðust fyrst og fremst voru þeir sem keyptu bankana samkvæmt helmingaskiptareglu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og sennilega framsóknarfyrirtæki, við erum að tala um tugi milljarða króna. Og um þá hagsæld sem þjóðin hefur haft af kerfisbreytingunni, hlutafélagavæðingu og sölu bankanna hef ég ákveðnar efasemdir.

Á síðasta ári dældu bankarnir 300 milljörðum kr. í íslenskt efnahagskerfi. Hvaðan sóttu þeir þessa peninga? Þeir sóttu þá í erlendum lánum. Ég er ansi hræddur um að það eigi eftir að gera upp allt dæmið.

Það er misskilningur hjá hv. þm. að þröng hugmyndafræði ráði afstöðu okkar, þröng pólitísk stefna. Þetta er praktísk afstaða. Við spyrjum: Hvað kemur þjóðinni best? Hvers vegna í ósköpunum eigum við að láta þessa eign frá okkur sem gefur af sér aðra eins arðsemi? Menn hafa talað um það í umræðunni, ég man ekki hvort það var hæstv. fjármálaráðherra, að það mætti hafa vexti af fjármagninu sem við fengjum fyrir söluna. En það fengist miklu minni arður með því móti en hinu að halda henni í þjóðareign. Það gefur mest í aðra hönd.