131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[17:55]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum fylgjandi blönduðu hagkerfi. Við teljum að ekki sé hægt um aldur og ævi að segja hvar línurnar eigi að liggja á milli þess sem á að vera á markaði annars vegar og þess sem á að vera á vegum samfélagsins hins vegar. Fyrr á tíð komu menn á fót bæjarútgerðum t.d. vegna þess að enginn aðili hafði burði til þess að ráðast í slík verkefni. Eins var með mörg önnur fyrirtæki á vegum ríkis og sveitarfélaga.

Hv. þm. nefndi Viðtækjaverslun ríkisins. Það dytti ekki nokkrum manni í hug að hafa slíkt í ríkiseign núna. Hér var rekin Ferðaskrifstofa ríkisins. Ég var fylgjandi því að hún væri seld. Hér var rekin Gutenberg prentsmiðja í eigu ríkisins. Engin andstaða var gegn því að hún væri seld.

En hér voru ríkisbankar. Ástæðan fyrir því að við vorum andvíg því að markaðsvæða og selja bankana var ekki sú að við hefðum þá eindregnu pólitísku skoðun að ríkið ætti að reka banka. Við vildum horfa praktískt á aðstæður og sögðum að við þær aðstæður sem Íslendingar búa við, í okkar litla hagkerfi væri ríkiseign á banka forsenda þess að hér gæti þrifist kröftug samkeppni. Það var ástæðan.

Við lítum því praktískt á hlutina, hvað er rétt hverju sinni, ekki hugmyndafræðilega. Það er í því ljósi sem við skoðum söluna á Símanum. Við teljum að hún gagnist ekki íslenskum heimilum.