131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[17:59]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þarna kemur hv. félagi minn úr verkalýðshreyfingunni við svolítið veikan blett því ég var einn af þeim sem tók þátt í því að slökkva á útvarpinu á sínum tíma í verkfallsbaráttu opinberra starfsmanna árið 1984.

Það er alveg rétt að nú er breytt umhverfi í fjölmiðlun og enginn að tala um að snúa því til baka þó margir hafi bent á að þegar innihaldið er gaumgæft hafi það ekki allt verið endilega til góðs, en ég ítreka að það er enginn að tala um að snúa því til baka. Hlutirnir nefnilega breytast og við eigum að sjálfsögðu að taka mið af breyttum aðstæðum. Meginatriðið er að taka mið af aðstæðum og reyna að hætta að hugsa þröngt og hugmyndafræðilega og skoða hlutina praktískt. Við bendum á að við erum með geysilega öflugt símafyrirtæki á Íslandi sem gefur okkur mikinn arð, milljarða á ári hverju í skatthirslur ríkisins, sem verður til þess að við getum létt skattbyrðum af skattgreiðendum og ráðið við kostnað sem við ella ekki gerðum, t.d. við uppbyggingu dreifikerfisins. Það eru þessar praktísku aðstæður sem við bendum á.