131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[18:16]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom víða við í sinni ágætu ræðu. Ég held að við deilum því meginmarkmiði að það þurfi að tryggja uppbyggingu grunnnetsins, hvað sem verður um Landssímann. Hv. þm. sagði, og það með réttu, að fyrirkomulagið sem við búum við er þannig að þeir sem vilja standa í fjarskiptaþjónustu eiga aðgang að grunnnetinu sem núna er rekið af Landssímanum. Landssíminn getur ekki sett öðrum sem selja fjarskiptaþjónustu neinar aðgangshindranir. Til þess er Póst- og fjarskiptastofnun sem stjórnar því. En ég skil einhvern veginn ekki enn, ég hélt að kominn væri ákveðinn skilningur milli okkar sem höfum verið í þessari umræðu, hvert Vinstri grænir eru að fara með þessu þingmáli af því að annars vegar heyrist mér á hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að ætlunin sé að fresta sölu Landssímans þar til búið er að ljúka uppbyggingu grunnnetsins sem hann telur að verði í kringum 2008 en í hinu orðinu talar hann fyrir því að það eigi ekki að selja Landssímann í það heila vegna þess að það sé hluti af einhverri grunnþjónustu sem allir landsmenn þurfa að njóta.

Svo skil ég heldur ekki, herra forseti, þegar hv. þingmaður rekur það að Landssíminn láti sig litlu skipta og vilji ekki leggja í kostnað við að byggja upp þjónustu í minni þorpum heldur séu ákveðin smærri fyrirtæki sem ráðist í að þjónusta þorpsbúa en síðan segir hv. þm. í hinu orðinu að þessi sömu smáu fyrirtæki séu að kaupa sér aðgang að grunnkerfi Landssímans. Ég vona að þingmaðurinn geti útskýrt aðeins betur hvað hann er að segja í svari við andsvari mínu. Eitthvað var það eitt í viðbót sem ég skildi ekki fullkomlega en ég sé að ég hef ekki tíma til að koma því að.