131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Túlkun fyrir heyrnarlausa.

[14:02]

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi. Einnig ber að þakka hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórn fyrir þær fregnir sem okkur hafa verið boðaðar í þingsalnum í dag.

Í samfélagi okkar hefur orðið umtalsverð aukning á fjármunum til þessa málaflokks og annarra sambærilegra. Það er vel enda er okkur kappsmál að geta búið sem best að þeim einstaklingum sem hafa skerta möguleika til tjáningar. Þessum einstaklingum þarf þjóðfélagið að koma til hjálpar eftir því sem kostur er þannig að þeir fái notið sín í samfélaginu og geti um leið lagt sitt af mörkum til framgangs samfélagsins. Taka verður tillit til búsetu þannig að allir einstaklingar búi við sömu aðstæður hvað þennan málaflokk varðar.

Brýnt er að samstarf og samhæfing sé milli þeirra ráðuneyta, sveitarfélaga, stofnana og annarra sem verkefninu sinna þannig að tryggt sé að þeir fjármunir sem til málaflokksins fara nýtist sem allra best. Ég vil velta því upp hvort ekki kunni að vera rétt að hafa einmitt samstarf milli þessara aðila og þeirra sem þurfa á táknmálstúlkun að halda um framgang málsins þannig að læra megi af þeirri reynslu sem skapast mun á næstu árum. Ég tel að þetta sé upphaf að annarri og meiri framtíð hvað þennan málaflokk varðar.