131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[14:25]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða afskaplega mikilvægt mál í dag, frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt. 1. flutningsmaður er Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar. Meðflutningsmenn hans eru allir þingmenn Samfylkingarinnar. Frumvarpið fjallar um að lækka virðisaukaskatt á matvælum úr 14% í 7%.

Eins og fram kom í ræðu hv. þingmanns þá vill Samfylkingin lækka matarverðið og hefur haldið því til streitu nú í allnokkur ár, a.m.k. í fjögur og á fimmta ár. Með því frumvarpi sem mælt hefur verið fyrir kemur fram að Samfylkingin vill lækka matarútgjöld heimilanna um 5 milljarða kr. Samfylkingin vill lækka matarútgjöld heimilanna um 5 milljarða kr. á meðan ríkisstjórnin vill deila þessum 5 milljörðum kr. út í skattalækkunum sem koma fólki með góðar tekjur og sem býr við góðan hag fyrst og fremst til góða.

Samfylkingin hefur vakið athygli á háu matarverði hérlendis með upplýsingum, þ.e. vönduðum samanburði á matarverði á Norðurlöndum sem var upphaf þessa máls. Samkvæmt samþykktri tillögu frá okkur í Samfylkingunni á Alþingi vann Hagfræðistofnun Háskóla Íslands skýrslu um matarverð fyrir fyrrverandi forsætisráðherra. Hún var lögð fram á Alþingi síðasta vor. Samfylkingin vill að það svigrúm sem nú gefst til skattalækkana verði notað þannig að það komi sem flestum til góða. Þess vegna leggjum við til lækkun á virðisaukaskatti á matvælum og teljum að það sé breyting á skattlagningu sem bæti hag allra, líka þeirra sem greiða lítinn skatt eða engan tekjuskatt. Þetta mun þá lækka matarverð sem er gífurlegt hagsmunamál allra fjölskyldna, líka þeirra sem eru með lágar tekjur eða bera jafnvel engan skatt. Ekki síst er þetta mikið hagsmunamál fyrir barnmargar fjölskyldur í landinu.

Ég vil líka vekja athygli á öðru mjög þýðingarmiklu atriði sem felst í þessu frumvarpi. Það er að lækkað matarverð mun hafa áhrif á vísitölu neysluverðs. Matur og drykkur vega 15% í neysluvísitölunni og það er neysluvísitalan sem ákveður verðtrygginguna, verðtrygginguna sem fyrst og fremst er að hækka hjá okkur lánin og heimilisútgjöldin í hvert einasta skipti sem vart verður einhverrar þenslu, þessa verðtryggingu sem er óttinn stóri sem fylgir miklum hagvexti og þenslu. Og nú er því spáð að verðtrygging muni aukast með þeim breytingum sem fram undan eru.

Hvað ætli það þýði að 15% af neysluvísitölunni ákvarðast af mat og drykk? Það hef ég kannað hjá Hagstofu Íslands. Hún reiknaði það út í október í fyrra — það getur vel verið að það muni einhverju smávegis, en væntanlega ekki til lækkunar — hvaða áhrif yrðu af því að lækka virðisaukaskatt á matvælum úr 14% í 7%. Niðurstaðan er að áhrifin yrðu um það bil 0,7–0,8% lækkun á vísitölunni.

Menn búast jafnvel við því að verðbólgan geti orðið 2,8% t.d. á þessu ári. Við því er búist að hún sé að fara upp í 3%. Vonandi fer hún ekki miklu hærra en það af því að núorðið gerum við okkur grein fyrir að 3% verðbólga er há verðbólga. Í stað þess að verðbólgan yrði t.d. 2,8% þá yrði hún eingöngu 2% með samþykkt þessarar tillögu. Þá væri ekki verið að „juksa“ eða fimbulfamba neitt með hlutina. Það væri afleiðing af stjórnaraðgerð sem væri á þann veg að í stað þess að fara í almennar skattalækkanir sem nýtast fyrst og fremst sérstökum hagsmunahópum þá kæmum við til móts við fjölskyldurnar í landinu með afgerandi hætti og um leið hefði það áhrif á verðtrygginguna.

Með tillögunni er Samfylkingin að undirstrika að hún vill ekki fara leið ríkisstjórnarinnar. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fór um það mörgum orðum í fyrstu ræðu sinni á þinginu í haust hvaða afleiðingar og hvaða hópa sú tillaga ríkisstjórnarinnar hitti fyrir. Fram kom í máli Jóhönnu Sigurðardóttur, hv. þm. Samfylkingarinnar, að af þeim 5 milljörðum sem ríkisstjórnin ætlar að verja til skattalækkana með sínum hætti, mundi um 25% fara til tekjuhæstu skattgreiðendanna og nánast ekkert til þeirra 25% í hópi þeirra tekjulægstu, en helmingurinn, 2,5 milljarðar, í vasa 25% tekjuhæstu.

Bara þetta tvennt, tillaga Samfylkingarinnar um að lækka skatta á matvæli úr 14% í 7% og verja til þess 5 milljörðum og hafa áhrif á verðtrygginguna, verðbætur lána, dýrtíðina og allt sem því fylgir og bera hana saman við leið ríkisstjórnarinnar sem ætlar með þessum hætti að flytja helminginn, 2,5 milljarða, í vasa 25% tekjuhæstu skattgreiðendanna er áhrifaríkt og hrópandi dæmi um mismuninn á þessum tveimur flokkum.

Það kom líka fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að þeir ríkustu mundu greiða einungis 12% af heildartekjum sínum til samfélagsins á þessu ári á meðan fólk með lágar tekjur og meðaltekjur greiðir af heildartekjum sínum að meðaltali 25%–27%. Þá segja forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar: Já, en það er eðlilegt. Eðlilega er skattalækkun að koma þeim sem eru með hærri tekjur og háa skatta meira til góða en hinum tekjulægri.

Það undirstrikar einnig stefnu núverandi ríkisstjórnar, að það fjármagn sem hún vill að renni til hagsbóta heimilunum í landinu rati í réttu vasana að eigin mati. Þetta finnst mér mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að draga fram og árétta og þessu munum við í Samfylkingunni halda á lofti hvar sem við komum og höfum tækifæri til að bera fram viðhorf og stefnur stóru flokkanna á Alþingi.

Það er ótrúlega þungt í vöfum að halda uppi faglegri umræðu á Alþingi um matarverðið. Ríkisstjórnin hefur um árabil þráast við að horfast í augu við dýran mat á Íslandi. Eftir að hafa fengið samanburð á matvælavísitölu Norðurlandanna í áratug og skoða mismunandi þróun hennar var unnt að kanna samanburð á matarverði á sama tíma og skoða hvað sá samanburður sagði til um þróun verðlags, vegna þess að það nægir ekki að bera saman matvælavísitölur þessara landa og segja: Þessi vísitala er hærri og þessi lægri. Skoða þarf hvernig matarverðssamanburðurinn var á tilteknum tíma eins og við gerðum í upphafi síðasta áratugar og hvernig matarverðið hafði þróast og hvernig það féll að breytingum á vísitölunni. Breytingar á vísitölunni hafa undirstrikað það allar götur síðan og hef ég óskað eftir því við Hagstofuna allnokkrum sinnum að hún bæti við þennan samanburð einu og einu ári því matarverðssamanburðurinn er svo sannarlega enn þá í óhag hjá okkur.

Samanburðurinn sem við í Samfylkingunni stóðum fyrir vakti mikla umræðu í þjóðfélaginu. Fólk fékk staðfest það sem það þóttist vita við samanburð á matarinnkaupum á ferðum sínum í öðrum löndum. Árið 2002 óskuðum við því eftir að gerð yrði úttekt á matarverðinu og hvað ylli mismunandi matarverði á Norðurlöndunum, þessum líku samfélögum sem við að öðru leyti berum okkur sífellt saman við og viljum vera jafnokar, hverju þyrfti að breyta til að ná verðinu niður í það sem viðgengst í nágrannalöndunum. Hagfræðistofnun vann skýrsluna sem lögð var fram á Alþingi tveimur dögum fyrir áformuð þinglok í vor og fékkst hún eigi rædd þó þing hafi dregist fram á mitt sumar eins og frægt er. Það er grátbroslegt, virðulegi forseti, að nú er ekki hægt að fá hefðbundna umræðu um skýrsluna sem aldrei hefur verið tekin fyrir eða rædd á Alþingi, jafnþýðingarmikil og hún er og jafnmikið erindi og hún á við okkur þingmenn sem raun ber vitni. Hún er þingskjal síðasta þings sem fæst ekki rætt á þessu þingi. Þess vegna þarf að færa málið í nýjan búning þingskjals eða semja um utandagskrárumræðu um skýrsluna til að unnt sé að taka ítarlega umræðu um ábendingar skýrsluhöfundanna, Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, og þær leiðir sem færar eru til að halda áfram að lækka matarverðið.

Virðulegi forseti. Ef ég glugga örstutt í meginatriði skýrslunnar er staðfest þar að matarverð er að meðaltali 50% hærra á Norðurlöndunum en meðalverð í Evrópusambandsríkjunum og tölum þá ekki um Suður-Evrópu vegna þess að sterku ríkin í Norður-Evrópu vigta svo þungt og í þeim samanburði eru m.a. Norðurlöndin sem voru með mjög hátt matarverð áður. Það er bara Noregur og Sviss sem toppa okkur í matarverðinu. Ýmsar ástæður eru tilgreindar í skýrslunni eins og smæð markaðar og, það eru mín orð, stjórn efnahagsmála. Samkeppnismálin vega mjög þungt að mati Hagfræðistofnunar og við getum farið ýmsar leiðir þegar við tölum um smæð markaðar. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, nefndi einmitt þetta með Evrópusambandið. Þessi lönd hafa lækkað svo mjög matarverðið og stækkuðu markaðinn hjá sér með aðild að Evrópusambandinu, en það er líka hægt að fara þá leið án þess að vera undir merkjum Evrópusambandsins. Svo er það stjórn efnahagsmála, að skattar, tollar og vörugjöld bæði á framleiðslustigum ýmiss konar og jafnframt á innflutninginn hafa gífurlega mikið að segja, ekki síst þar sem við veljum að vera með tollavernd.

Það kom líka fram að opinber stuðningur við landbúnaðinn er enn með því hæsta innan iðnríkjanna á Íslandi. Við greiðum 12–13 milljarða árlega með landbúnaðinum samkvæmt tölum frá Hagfræðistofnun háskólans. Helmingur er tekinn í gegnum skatta en hinn helmingurinn af stuðningnum er tekinn í gegnum matarverðið sem Hagfræðistofnun segir að sé mun verri kostur en að fara aðrar leiðir til að styðja landbúnaðinn. Þess vegna kemur hún beinlínis með ábendingar um að breyta landbúnaðarstuðningi úr matarverðinu og fara í beinstuðning. Það sé eina færa leiðin. Þá værum við væntanlega að tala bara varðandi landbúnaðinn um næstum því sambærilegar tölur sem við ræðum í frumvarpinu. Að tryggja samkeppni og opna meira gagnvart viðskiptum við útlönd er líka mjög mikil og áþreifanleg ábending við lestur skýrslunnar.

Að lokum þetta. Þegar upplýsingar lágu fyrir í tillögum okkar í Samfylkingunni um matarverðið var mörgum starsýnt á þá staðreynd að matarverð lækkaði gífurlega í kjölfar Evrópusambandsaðildar. Að sjálfsögðu átti að benda á það. Að sjálfsögðu átti það að vera í umræðunni. Við eigum að þora að taka umræðu um alla þætti sem hafa áhrif á matarverð og kjör okkar Íslendinga. Svo geta verið aðrir þættir sem fólk leggur á móti og telur að það sem ávinnst við að ná niður matarverði með aðild að Evrópusambandinu sé ekki þess virði. Það er allt önnur pólitík. En að sjálfsögðu var bent á þetta og mörgum fannst forvitnilegt hversu mjög matarverðið í Svíþjóð og Finnlandi lækkaði eftir að þeir gerðust aðilar að Evrópusambandinu. Þetta voru áhrif opnunar markaðar og afnám tollverndar eins og Evrópusambandið gerir kröfu um.

Kynnt var í Noregi að áætlað væri að fjögurra manna fjölskylda eyddi um 70 þús. ísl. kr. á mánuði í mat. Sú fjölskylda mundi spara 250 þús. kr. á ári miðað við verðlagsforsendur í Svíþjóð eftir aðildina að Evrópusambandinu. Hér fengust þær upplýsingar á Hagstofu að meðalútgjöld heimilis, meðalheimilið er talið 2,82, væru um 40 þús. sem eru þá, ef þau eru yfirfærð á fjögurra manna fjölskyldu, um 60 þús. kr. á mánuði. Ef sama aðferð væri notuð hér og í Noregi mundi matarreikningur íslenskra fjölskyldna lækka um 200 þús. kr. á ári með tilsvarandi lækkun og var í Svíþjóð eftir aðild. Hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, varð harðorður á þennan samanburð á Evrópusambandsgrundvelli. Hann sagði um matarverðið að það hefði ekkert með Evrópusambandsaðild að gera og að við gætum gert þetta sjálf.

Ég höfðaði til þess að frá því að fyrst var spurt um það fyrir fjórum árum hvernig þróun matvælavísitölu hefði verið frá 1990 að við skyldum skoða þetta saman. Ég trúi því enn að það hafi verið ástæða þess að það náðist í gegnum Alþingi að fá afgreiðslu á þeirri tillögu þar sem óskað var eftir úttekt af Hagfræðistofnun háskólans því við í Samfylkingunni viljum líka vita hvernig getum við gert þetta sjálf. Við erum ábyrgur flokkur. Við viljum skoða hvað getur gerst við Evrópusambandsaðild. Við viljum sjá hvað við þurfum að gera ef við förum í ríkisstjórn og við ætlum að gera þetta sjálf og mjög margar ábendingar koma um málið í skýrslu Hagfræðistofnunar háskólans.

Leiðirnar sem hægt er að fara eru taldar upp í skýrslunni. Ábendingar um hvað megi gera öðruvísi eru taldar upp í skýrslunni. Upplýsingar um hvar vörugjöld hafa áhrif eru sýndar með töflum í skýrslunni og breytingar sem hugsanlega yrðu gerðar eru sýndar með línuritum í skýrslunni, sem við höfum ekki getað rætt á Alþingi vegna þess að ríkisstjórnin hafði öðrum hnöppum að hneppa fram eftir öllu sumri og þurfti að eyða vikum saman á Alþingi til að ræða fjölmiðlafrumvörp sem síðar voru öll dregin til baka. En það hefur ekki enn fundist leið til að ræða nánar þetta hagsmunamál, matarverðið og hagsmuni fjölskyldnanna í landinu, ég tala ekki um þeirra sem eru með lágar tekjur og barnmargar og mikil útgjöld. Þá leið ætla ég að finna, virðulegi forseti, annaðhvort með nýju þingmáli eða með því að biðja um sérstaka utandagskrárumræðu sem yrði þá að vera lengri en hálftími.

Virðulegi forseti. Umræðan mun undirstrika vilja Samfylkingarinnar til að taka á málefnum fjölskyldnanna, barnafjölskyldnanna og allra þeirra sem hafa lág laun, litlar tekjur, líka þeirra sem ekki bera skatta og munu ekki njóta skattalækkunar ríkisstjórnarinnar.