131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[15:18]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir miður sá forgangur sem ríkisstjórnin hefur. Ég segi það enn og aftur vegna þess að það liggur á að bæta kjör og lækka skatta hjá fólki með meðaltekjur og lágar tekjur en ekki að lækka skatta hjá fólki með háar tekjur. Og Framsóknarflokkurinn eða Sjálfstæðisflokkurinn hafa ekki mótmælt því að skattalækkunin rennur að mestu leyti til hátekjufólks.

Það er út af fyrir sig gott að Framsóknarflokkurinn hafi ekki gleymt barnafólkinu en barnabæturnar eru lægri að raungildi núna en þegar flokkurinn tók við 1995. Framsóknarflokkurinn hefur ekki staðið við það að hafa ótekjutengdar barnabætur upp að 16 ára eins og ég skildi að hann hefði lofað. Ef einungis á að verja 3 milljörðum í viðbót í barnabætur og stimpilgjöld, af því að hv. þm. nefndi líka stimpilgjöld, mun það ekki drífa langt. Ég býst við að það muni varla drífa svo langt að koma barnabótunum á sama flöt eins og var 1995 og það kostar 3,5 milljarða að afnema stimpilgjöldin sem hefði verið skynsamlegri leið að fara í, bæði fyrir einstaklinga og atvinnulíf ásamt því að lækka matarskattinn, ásamt því að breyta barnabótakerfinu fyrir þá fjármuni sem ríkisstjórnin ætlar að nýta í tekjuskattslækkun sem að verulegu leyti gengur til tekjuháu hópanna. Því miður lítur dæmið þannig út. Það hefði verið hægt að gera mikið í hækkun á barnabótum og lækkun á matvælum, sem gagnast best fólki með lágar og meðaltekjur, og afnema stimpilgjöldin sem mundi gagnast mjög mikið ungu fólki sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið, ungu fólki sem er núna að skuldbreyta erfiðum lánum. Það hefði skilað sér margfalt betur til fólks í þjóðfélaginu almennt en sú leið sem ríkisstjórnin er að fara og ég veit það, hæstv. forseti, að í hjarta sínu er hv. þm. algerlega sammála þeim málflutningi sem ég hef haft hér.