131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[15:20]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum, og það er þingflokkur Samfylkingarinnar sem stendur að því að leggja það frumvarp fram. Ég sakna þess svolítið í upphafi umræðunnar að það skuli einungis vera við sem stöndum að því að flytja frumvarpið sem tökum þátt í umræðunni en ég held þó ef við lítum til þess sem aðrir hafa sagt í andsvörum, eins og hv. þm. Halldór Blöndal og hvað hann hafði til málanna að leggja, að þá sé kannski ekki til mikils að vera að fá stjórnarliða í umræðuna.

Ég var satt að segja að vonast til þess að við gætum farið í málefnalega rökræðu um leiðir til þess að koma skattalækkunum til þeirra sem helst þurfa á þeim að halda. Sú von mín hefur brugðist og þegar maður horfir yfir salinn og sér hve margir stjórnarliðar eru viðstaddir umræðuna þá ætla menn sér kannski ekki að taka virkan þátt í því að ræða í alvöru um það hvort rétt sé að fara þá leið að lækka virðisaukaskattinn í stað eða meðfram því að lækka tekjuskattsprósentu.

Við höfum lagt á það áherslu núna að við notum það svigrúm sem er til að lækka skatta til þess að lækka svokallaðan matarskatt úr 14% í 7%, göngum hálfa leið í því að afnema þennan matarskatt alveg.

Það vita það allir sem vilja vita að matvælaverð á Íslandi er með því hæsta í heimi og það hlýtur að hvíla á okkur sú skylda að leita allra leiða til þess að ná því verði niður með einhverjum hætti. Með því að breyta virðisaukaskattinum úr 14% í 7% förum við beint í það að lækka matarverðið og þeir njóta sem helst þurfa á að halda. Ef við lækkum matarskattinn úr 14% í 7% kemur það öllum sem kaupa matvæli til góða og það eru jú allir sem þurfa á fæðu að halda, bæði þeir sem hafa lágar tekjur og eins þeir sem hafa þær hærri. Með því að fara þá leið náum við því að koma hluta af því góðæri sem hér ríkir til þess fólks sem er framteljendur, telur fram einhverjar tekjur en greiðir enga skatta vegna þess hve tekjur þess eru lágar. Það eru u.þ.b. 80 þúsund framteljendur sem telja fram einhverjar tekjur en borga enga skatta vegna þess að tekjur þeirra eru það lágar. Þetta er fólk sem er algerlega fast, læst inni í fátæktargildru skattkerfisins og á afskaplega litla möguleika til að komast úr þeirri stöðu sem það er í. Það eru ekki margar leiðir til þess að koma skattaívilnunum til þess fólks sem er með örfá þúsund á mánuði í tekjur og borgar engan tekjuskatt. Ef við gerum það í gegnum virðisaukaskattskerfið þá komum við hagnum af því að lækka matarskattinn beint til þessa fólks, beint í budduna til þeirra sem lítið hafa.

Í þeim hópi, herra forseti, eru að sjálfsögðu okkar minnstu bræður. Það eru bótaþegar sem eru með bætur undir skattleysismörkum. Oft eru þetta barnafjölskyldur eða einstæðir foreldrar sem eiga lítinn möguleika á því að bæta við sig tekjum með því að vinna einhverja yfirvinnu og síðan eldri borgarar sem hættir eru á vinnumarkaði og hafa lág eftirlaun. Til þessa fólks getum við náð núna. Við getum komið svigrúmi upp á 5 milljarða kr. til þessa hóps með því að fara þá leið sem hér er lögð fram en ekki með því að fara þá leið sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa lagt til og við fórum svo vel yfir í umræðunni um fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár, að lækka tekjuskattsprósentuna um 1% á alla og reyndar megum við ekki gleyma því að við lögfestum á síðasta þingi lög um að afnema svokallaðan hátekjuskatt eða sérstakan tekjuskatt.

Þeir sem hæstu launin hafa, þeir sem hafa yfir 375 þús. kr. á mánuði fá skattaívilnun á næsta ári. Þeir eru að fá þá skattaívilnun sem við samþykktum á síðasta þingi, að svokallaður hátekjuskattur sem leggst á tekjur umfram 375 þús. kr. lækki nú um helming. Í stað þess að greiða 4% á næsta ári af tekjum yfir frítekjumarkið í hátekjuskatti greiða menn 2%. Síðan árið þar á eftir, árið 2006, fellur þessi skattur alveg niður. Ég hélt satt að segja þegar farið var í gegnum þessa umræðu að menn væru tilbúnir til að segja: Við erum búin að lögfesta skattalækkun til þeirra sem hæstu tekjurnar hafa. Við erum búin að lögfesta það að þeir sem hafa mánaðartekjur yfir 375 þús. kr. fá skattalækkun upp á 2% fyrir þær tekjur sem umfram eru á næsta ári og í heildina 4% á árinu 2006. Því hélt ég að menn mundu ekki höggva aftur í sama knérunn og segja: Það er einmitt þetta fólk sem hefur yfir 375 þús. kr. sem við þurfum að lækka skattana á. Við þurfum að koma svigrúminu sem nú er til þessa hóps en skilja eftir þá sem eru með tekjur undir skattleysismörkum og tekjur kannski á bilinu 70–100 þús. kr.

Ég held að í þeim mismun sem liggur í þessum tillögum, þ.e. tillögu okkar að lækka matarskattinn og svo því sem ríkisstjórnin hefur boðað sjáum við í hnotskurn þann mun sem er á stefnu Samfylkingarinnar annars vegar og stefnu þeirra flokka sem nú sitja við völd um þessar mundir hins vegar. Og það kemur manni satt að segja á óvart að sjá hinn gamla félagshyggjuflokk, Framsóknarflokkinn, taka þátt í því grímulaust að færa skattbyrði frá þeim sem betur hafa og hærri tekjur hafa til þeirra sem eru í tómu basli og hafa varla tekjur til að framfleyta sér og sinni fjölskyldu. Það er illa komið fyrir þessum gamla félagshyggjuflokki og það liggur við að maður þurfi að fara að kalla út einhvers konar leitarsveit til að leita að þeim hv. þingmönnum í Framsóknarflokknum sem enn kenna sig við félagshyggju.

Það kom alveg skýrt fram í umræðu um fjárlagafrumvarpið og skattbreytingar ríkisstjórnarinnar, það kom skýrt fram hjá hæstv. fjármálaráðherra Geir H. Haarde, og þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem töluðu í fjárlagaumræðunni fóru ekkert í launkofa með það, að Framsóknarflokkurinn er ekki tilbúinn á þessari stundu til að lækka virðisaukaskatt á matvæli eða til að lækka virðisaukaskatt yfirleitt. Ég spurði hv. þm. Birki Jón Jónsson í umræðunni um fjárlögin hvort það væri rétt sem mætti skilja af því sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins væru að segja að Framsóknarflokkurinn þvældist fyrir þessu máli og hann kom í andsvar en kaus að svara því engu.

Hv. þm. Dagný Jónsdóttir kom áðan í andsvar við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og fór yfir það að einhver vinna væri í gangi um að lækka virðisaukaskatt og það væri gott ef við gætum heyrt í umræðunni á eftir hvaða vinna það er og að hverju hún beinist. Getur verið að Framsóknarflokkurinn sé að tala um það að lækka virðisaukaskatt á alla vöru, ekki bara á matvöruna? Getur verið, og það læðist að manni sá grunur sérstaklega þegar maður sér hvernig ríkisstjórnarflokkarnir fara í skattalækkanir sínar, að þeir séu hugsanlega að velta fyrir sér að lækka virðisaukaskatt eingöngu á lúxusvöru þannig að það nýtist þeim best sem hæstu tekjurnar hafa? Ég ætla að vona ekki. Það eru öfgarnar í hina áttina miðað við þá tillögu sem við erum að leggja fram og reyndar, þegar maður skoðar skattastefnuna eins og hún liggur fyrir og kom fram í fjárlagafrumvarpinu, yrði maður svo sem ekkert hissa.

Hvað þýðir það að lækka virðisaukaskatt úr 14% í 7%? Jú, það þýðir það að fyrir hverjar 10 þús. kr. sem einstaklingur eða fjölskylda eyðir til matarinnkaupa sparast 574 kr. 574 kr. fyrir hverjar 10 þús. kr. sem eytt er í matvæli. Virðisaukaskatturinn af þessum innkaupum var 1.228 kr. eða er það í dag miðað við 14% skattstig, yrði 654 kr. og sparnaðurinn eins og ég segi upp á 574 kr. fyrir hverjar 10 þús. kr. Hvað var ríkisstjórnin að bjóða þeim sem hafa 100 þús. kr. í mánaðarlaun miðað við að tekjuskattur lækkaði um 1%? Jú, 612 kr. á mánuði eða mjög svipaða tölu og aðili með litlar tekjur mundi fá í skattafslátt við það að kaupa matvæli fyrir 10 þús. kr.

Það kom fram í umræðunni áðan að væntanlega eyddi fjögurra manna fjölskylda á Íslandi í kringum 60 þús. kr. í matarinnkaup. Það hlýtur reyndar að vera mjög misjafnt eftir því hvaða tekjur fjölskyldur hafa. En ef það er rétt að um 60 þúsund kr. matarinnkaup á mánuði sé að ræða þá gerir þessi tillaga okkar ráð fyrir að á ársgrundvelli spari sú fjölskylda 41 þús. kr. Snilldin við þessa tillögu okkar er ekki síður sú að hún kemur til með að lækka matarverðið sem er inni í neysluvísitölunni. Hún kemur til með að lækka þá verðbólgu sem við erum að horfa fram á síðustu vikur og mánuði. Hvað þýðir það fyrir fjölskyldu sem skuldar 10 millj. kr. í húsnæðisláni, verðtryggðu láni? Erum við ekki að tala um, miðað við þær upplýsingar sem fram komu hér, að þetta gæti haft þau áhrif að verðbreytingar eða vísitala muni lækka um 0,8% við þessa breytingu vegna vægi matvæla í vísitölunni? 10 millj. kr. lán og 0,8% eru þá 80 þús. kr. á ársgrundvelli í eitt skipti. Við getum talað um að hagur þeirrar fjölskyldu batni á næsta ári um 120 þús. kr.

Ég held að það fari ekki fram hjá neinum sem það vill skoða og í alvöru velta fyrir sér hvernig koma megi þessum 5 milljörðum kr. sem verið er að tala um núna til þeirra sem mest þurfa á þeim að halda að þetta er beinasta leiðin og greiðasta leiðin. Þessi leið nýtist öllum þeim sem þurfa að kaupa sér matvörur en það þurfum við öll.

Íslensk heimili eru, eins og áður hefur komið fram, þau skuldsettustu í heimi. Við erum með tugþúsund launþega á Íslandi sem rétt ná að framfleyta sér og fjölskyldum sínum, launþega sem í hverjum einasta mánuði horfa fram á að launatékkinn dugi ekki til að greiða þá reikninga sem fyrir liggja á borðinu, engan lúxus heldur þá reikninga sem þarf að greiða til að geta haldið heimili og haldið í sér lífi. Þessir sömu aðilar greiða samt sem áður skatt.

Ef við skoðum þetta aðeins nánar þá talaði ég um áðan að 60 þús. kr. matarinnkaup á mánuði þýddu að á ársgrundvelli væri fjölskylda að spara sér 41 þús. kr. skattgreiðslu til ríkisins, ef virðisaukaskatturinn lækkaði úr 14% í 7%. Það þýðir 3.444 kr. á mánuði. Tillögur ríkisstjórnarinnar eru hins vegar um 1% lækkun á tekjuskatti. Til að fá á mánuði samsvarandi skattalækkun með því móti, þ.e. 3.444 kr., þarf viðkomandi að hafa í kringum 350 þús. kr. mánaðartekjur.

Sú leið sem við bjóðum upp á er ekki bara, herra forseti, fyrir þá sem lægstu tekjurnar hafa heldur njóta þeir hennar að sjálfsögðu ekkert síður sem meiri tekjur hafa. Mér virðist sem flestir sem eru undir 500 þús. kr. í mánaðartekjur og kaupa mat fyrir 60–80 þús. kr. á mánuði njóti betur þeirrar tillögu sem liggur fyrir hjá okkur heldur en tillögu ríkisstjórnarinnar, um 1% lækkun á tekjuskatti. Þá er eðlilegt að menn spyrji: Getur þetta verið?

Getur verið að allir þeir sem hafa 500 þús. kr. mánaðartekjur og lægri komi betur út úr því að virðisaukaskatturinn sé lækkaður um helming á matvælum heldur en í tillögum ríkisstjórnarinnar? Verður þá ekki ríkið af mikið meiri tekjum heldur en hér er rætt um? Við skulum velta því fyrir okkur í alvöru hvort það geti verið að hluti af þeirri skýringu sé sú að þeir sem hafa 500 þús. kr. og meira eru að njóta svo mikils miðað við þær tillögur sem fyrir liggja hjá ríkisstjórninni. Getur það verið skýringin?

Hv. þm. Pétur Blöndal benti á að þetta snerist um fjölskyldutekjur. Auðvitað er það rétt að þegar menn kaupa matvæli þá eru það ekki bara tekjur einstaklingsins sem fara í að greiða fyrir matvælin heldur tekjur hjóna ef bæði eru á vinnumarkaði. En við skulum ekki gleyma því að fjöldi fólks, um 80 þúsund framteljendur sem telja fram einhverjar tekjur, greiða ekki tekjuskatt til ríkisins. Við getum kallað það fjölskyldutekjur eins og hv. þm. Pétur Blöndal gerir, ef hvor um sig hefur 70 þús. kr. á mánuði þá er mér það að meinalausu að kalla það fjölskyldutekjur. En það eru tekjur sem fara til þess að kaupa matvæli og reyna að halda lífi í fjölskyldunni.

Það sem ég hef farið yfir í stuttri ræðu minni finnst mér einfaldlega sýna mjög skýrt að sú ríkisstjórn sem nú situr er fjandsamleg millitekjufólki og lágtekjufólki í landinu sé litið til skattbyrðarinnar. Skattbyrðin hefur í stórum stíl færst frá þeim sem meiri tekjur hafa til þeirra sem minni tekjur hafa. Yfir það var vandlega farið í máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, í framsögu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og nú síðast gerði hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir því góð skil hvernig skattbyrðin hefði verið færð til. Það hlýtur að vera komið að því að við veltum því fyrir okkur í alvöru hvernig við skilum fólki einhverju til baka af því sem búið er að taka af því með skattbreytingum undanfarinna 2–3 ára.

Í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fór hún yfir það hvernig ríkisstjórnin hefur hækkað skatta á launafólk með því að skattleysismörkin hafa ekki fylgt verðlagsþróun, með ýmsum skerðingum á barnabótum og vaxtabótum og með ýmsum þjónustugjöldum sem lögð eru á í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu o.s.frv. Þannig má reikna út að sú upphæð sem þar um ræðir sé svipuð þeirri sem hér er um að ræða, með lækkun matarskatts, í kringum 5 milljarða kr. á ári. Jafnvel þótt við færum þá leið sem hér er verið að leggja til þá gerði hún lítið annað, herra forseti, en rétt hrökkva til að skila landsmönnum aftur hluta af því sem núverandi ríkisstjórn hefur tekið af þeim í formi hærri þjónustugjalda, lægri skattleysismarka og ýmissa bóta sem búið er að skerða.

Þegar maður skoðar þá leið sem ríkisstjórninni hefur núna valið þá hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort hún sé réttlát. Ef svo er þá mundi maður, herra forseti, ekki vilja sjá ranglætið hjá ríkisstjórninni.