131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[16:28]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmenn hugsa greinilega mikið um hvernig stjórnarsamstarfinu er háttað. Ég veit ekki hvað ég er búin að segja það hér oft í dag en ég ítreka að það gengur bara alveg ágætlega.

Hv. þm. spyr um stefnu Framsóknarflokksins í virðisaukaskattsmálum og skattamálum yfir höfuð. Stefnan er alveg skýr. Við höfum forgangsraðað. Forgangsröðunin er sú að lækka tekjuskattsprósentuna. Við teljum að það skili sér til allra og það sé sanngjörn leið. Um þessa leið var líka kosið í síðustu kosningum og ég mundi segja að heiðarlegt sé að standa við þau kosningaloforð.

Ég fullyrði hér að Framsóknarflokkurinn er ekki að stoppa lækkun virðisaukaskatts á matvælum — það er ekki rétt — heldur er endurskoðunin í eðlilegum farvegi. Þetta er gríðarlega viðamikið verkefni. (Gripið fram í.) Við vitum það t.d. að margar leiðir eru færar í þessum málum. Á til að mynda að fara út í flata lækkun á virðisaukaskatti? Á að fara í að útbúa fleiri þrep? Á að taka ákveðna flokka út? Þar kemur auðvitað umræðan um matarskattinn inn í og umræðan um barnavörurnar og fleira og fleira. Þetta er nokkuð sem þarf að ræða og íhuga afar vel áður en það verður ákveðið.

En við tökum að sjálfsögðu öllum góðum málum með opnum huga og vinnum að þessu í góðri samvinnu við samstarfsflokkinn.