131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[16:30]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það verður að þakka hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur fyrir þann kjark og þor sem hún sýnir með því að vera hér í salnum og ræða um skattastefnu Framsóknarflokksins eins og hún birtist okkur í tillögum Sjálfstæðisflokksins, það eru ekki aðrir hv. þm. Framsóknarflokksins sem leggja það á sig að koma og svara fyrir hana.

Núna er það ekki bara 1% lækkun á tekjuskatti sem við erum að horfa á. Það er búið að boða að á næstu tveimur árum lækki hann um 3% til viðbótar, að áfram verði haldið á sömu leið. Það er búið að segja okkur það að frá því að við komum hér til þings og þar til þessu lýkur hjá þeim muni tekjuskattur lækka um 4%.

Þetta þýðir einfaldlega að sá launþegi sem er með eina millj. kr. á mánuði má vænta þess, þegar þessu átaki ríkisstjórnarinnar verður lokið, að greiða í kringum 75–80 þús. kr. minna í skatt á mánuði, þegar sá sem hefur 100 þús. kr. í tekjur getur vænst þess þegar þessa mikla skattátaki lýkur að greiða 2.400 kr. minna á mánuði í skatt. Þetta er réttlætið sem ríkisstjórnin er að kynna okkur fyrir, þetta er réttlætið sem við horfum framan í og því komum við hér með tillögur um með hvaða hætti er hægt að koma þessu beinna til þeirra sem þurfa á að halda. Ég vona að Framsóknarflokkurinn vitkist og hætti að standa á móti því að hægt sé að lækka matarskattinn. (Gripið fram í: Mikil er von þín.) Ja, mikil er von mín, ég er það nýr þingmaður að ég eiginlega trúi enn að hlutirnir geti gerst. Auðvitað á maður kannski ekkert að trúa þegar maður veltir fyrir sér barnakortum Framsóknarflokksins. Þau líta svona út enn þann dag í dag.