131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[16:55]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð enn meira undrandi eftir þessa yfirlýsingu hv. þm. því það er nákvæmlega þetta sem vantaði í yfirgripsmikla ræðu hans. Er það með öðrum orðum enn þá stefna Sjálfstæðisflokksins að hann vilji lækka matarskatt úr 14% í 7%?

Nú liggur það fyrir í þessari umræðu að allir umframfjármunir ríkissjóðs hafa verið fráteknir í önnur verkefni þannig að eftir stendur að í skattaprógrammi ríkisstjórnarinnar er ekki gert ráð fyrir að standa við fyrirheit og loforð Sjálfstæðisflokksins sem hann fór fram með með miklum hávaða og látum fyrir síðustu kosningar og eftir stendur því að allar yfirlýsingar hans fyrir síðustu kosningar voru hjóm eitt og að engu hafandi.