131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[16:57]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var ekki mjög fróðleg ræða sem hv. þm. flutti hér áðan en hún var þeim mun skemmtilegri. Hún var full af vondri sagnfræði og síðan sérkennilegri rökfimi þar sem hv. þm. var að berjast við að afsanna fullyrðingar sem hann bjó til úr munnum annarra þingmanna en sem aldrei voru sagðar í umræðunni í dag.

Látum það nú vera, það er gamalkunn bardagaaðferð sem tengist nokkuð stíl hv. þingmanns. Mig langar hins vegar til þess að spyrja hv. þingmann: Hvað veldur því að ekki er komin fram skýr viljayfirlýsing um að matarskatturinn verði lækkaður? Ég vísa m.a. til yfirlýsinga hv. þingmanns úr kosningabaráttunni. Er það vegna þess að það er óvilji af hálfu einhverra í stjórnarliðinu? Ég spyr hv. þingmann einnig: Er það ekki rétt sem hæstv. fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, hefur sagt að það er Framsóknarflokkurinn sem ekki hefur fallist á ákveðna útfærslu í þessu máli?