131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[16:59]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég var ekki að brigsla hv. þm. um vísvitandi ósannindi en mér finnst hann stundum taka ákaflega illa eftir. Það sem ég átti við voru þau orð sem hv. þm. hafði eftir hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að hún hefði sagt að lækkun á vaskinum hefði einungis í för með sér kjarabætur fyrir þá lægst launuðu og lækkun á tekjuskattsprósentunni einvörðungu hagsbætur fyrir þá sem vel væru efnaðir. Það var það sem hv. þm. sagði.

Upp úr þessu stendur tvennt: Hv. þm. Halldór Blöndal treystir sér ekki til þess að segja að Geir H. Haarde hafi farið með rétt mál þegar hann upplýsti að ástæðan fyrir því að virðisaukaskattslækkun væri ekki á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar væri sú að Framsóknarflokkurinn hefði ekki fallist á hana.

Í öðru lagi stendur það upp úr þessari umræðu að hv. þm. Halldór Blöndal var að blekkja kjósendur fyrir kosningar með því að berjast fyrir lækkun sem hann er ekki lengur að berjast fyrir.