131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[17:18]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal lifir stundum í heimi mikilla blekkinga. Meðal annars sagði hv. þm. að þessi ríkisstjórn hefði barist fyrir því umfram aðrar sem sátu á undan henni að stækka kökuna. Það er samt sem áður þannig, frú forseti, ef maður skoðar feril þessarar ríkisstjórnar, að t.d. hagvöxtur hér á landi hefur ekki verið meiri að meðaltali en í samanburðarlöndum okkar í Vestur-Evrópu á því skeiði sem liðið hefur frá því Sjálfstæðisflokkurinn tók við forsæti í ríkisstjórninni. Hann hefur ekki verið meiri en í öðrum löndum. Ísland er meira að segja ekki jafnofarlega á lista yfir ríkar þjóðir og áður. Þegar þessi ríkisstjórn, þ.e. þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók við forsæti hennar, var Ísland í 8. sæti á listanum yfir ríkustu þjóðir. Í dag er Ísland komið niður í 9.–10. sæti. Það er ekki mikil breyting en breyting þó sem sýnir fram á að þetta sjálfshól hv. þm. á sér kannski ekki stoð í raunveruleikanum.

Það er alveg rétt sem hv. þm. segir að í þessu máli birtist verulegur ágreiningur um hugmyndafræðilegar aðferðir í stjórnmálum milli okkar og a.m.k. margra stjórnarliða. Við erum þeirrar skoðunar að ekki eigi einungis að líta á skattkerfið sem tekjuaðferð, tekjulind, heldur líka aðferð til jöfnunar. Mér er til efs að sumir sjálfstæðismenn sem t.d. hafa stigið inn í stjórnmálin úr verkalýðshreyfingunni séu sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal um að það eigi ekki líka að nýta skattkerfi til jöfnunar. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að gera það. Það vilja jafnaðarmenn og ég ímynda mér að ákaflega margir sjálfstæðismenn séu líka þeirrar skoðunar, sem betur fer.

Ég spyr: Er Pétur H. Blöndal eini þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem er á móti þeirri aðferð sem lögð er til í þessu frumvarpi?