131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[17:20]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki um hug allra þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Ég get því ekki svarað fyrir þá, enda er ég ekki vanur að gera það. Ég segi aldrei, eins og hv. þm. gerir gjarnan: við samfylkingarmenn, við sjálfstæðismenn. Ég hef mína skoðun alveg prívat og hún er einkaeign og ekki nein sameign Sjálfstæðisflokksins. Hins vegar fara skoðanir okkar í flestum málum saman í þingflokki Sjálfstæðisflokksins og þess vegna er ég í þeim flokki.

Varðandi það hvort menn í flokknum séu almennt hlynntir tekjujöfnun skattkerfisins eða ekki þá eru eflaust einhverjir sem hafa ýmsar skoðanir á því, enda er Sjálfstæðisflokkurinn ekki með eina hreina og klára skoðun í öllum málum eins og mætti halda þegar maður hlustar á stjórnarandstöðuna að sé í þeirra flokkum. Menn eru með mismunandi skoðanir og þeir ræða þær fram og til baka og það er uppspretta mikillar umræðu sem gefur yfirleitt af sér góða niðurstöðu.

Í mínum huga, og ég tók það sérstaklega fram, á skattkerfið ekki að vera til tekjujöfnunar, ég held nefnilega að þegar menn reyna með skatti að jafna tekjumun sem er náttúrulegur — við viljum jú borga meira fyrir menntun, meira fyrir snilli, meira fyrir dugnað, meira fyrir stundvísi o.s.frv. — það er ákveðinn náttúrulegur launamunur og þegar menn reyna að skattleggja þann launamun burt sprettur hann upp eftir skatt. Við höfum séð það í Svíþjóð og víðar að menn fara þá alls konar leiðir til að ná fram þeim launamun sem er eðlilegur í hagkerfinu. Ég held því að skattkerfi eigi ekki að notast til þess að reyna að skekkja launamun sem hefur myndast eðlilega í hagkerfinu. Ég held meira að segja að ef tekinn yrði upp flatur tekjuskattur mundi launamunur fyrir skatt minnka og verða sá sami og er núna eftir skatt.