131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[17:22]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég geri mér mætavel grein fyrir því að hv. þm. talar fyrst og fremst fyrir munn sjálfs sín. Hins vegar tel ég að ég hafi rétt til að inna hann eftir skoðun Sjálfstæðisflokksins vegna þess að hann er ekki bara venjulegur þingmaður, hann er talsmaður flokksins í efnahagsmálum í þinginu, hann er formaður efnahags- og viðskiptanefndar.

Það hefur komið mörgum sinnum fram af hálfu margra þingmanna Sjálfstæðisflokksins og af hálfu forustu flokksins ítrekað í kosningabaráttunni að sú leið sem við erum að leggja til í frumvarpinu, að lækka matarskattinn, sé hentug leið við skattalækkanir. Hv. þm. rær einn á báti. Hann er eini þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem ég man eftir sem hefur beinlínis mælt gegn þeirri leið. Hv. þm. segir að það sé vegna þess að það að lækka tekjuskattsprósentuna sé líklegra til að stækka kökuna. Hann segir að það hvetji menn til að vinna meira, eða eins og hann orðar það, hvetji hina fátæku til þess að verða ríkari. Heldur hv. þm. virkilega að það skipti einhverjum sköpum fyrir þá sem hægt er að skilgreina sem fátæklinga í íslensku samfélagi, þeir eru sem betur fer ekki margir, þó að tekjuskattsprósentan sé lækkuð um 1%? Að sjálfsögðu ekki. Þegar ég fór úr ríkisstjórn sem ég sat í með nokkrum ágætum sjálfstæðismönnum, borguðu fátæklingarnir ekki skatt en þeir borga hann í dag.

Frú forseti. Ég skil það líka að hv. þingmaður sé áfram um að lækka skatta vegna þess að í tíð þessarar ríkisstjórnar, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur leitt, hefur skattheimtan aukist. Þrátt fyrir þá lækkun sem verið er að lofa um næstu áramót, er hlutfall skattheimtunnar af vergri landsframleiðslu enn þá hærra en þegar Ólafur Ragnar Grímsson sat hér á sælum fjármálaráðherradögum sínum. Í tíð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar hafa heildarskatttekjur ríkisins sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hækkað. (Forseti hringir.) Ég hef því fullan skilning á þessari viðleitni hv. þm.