131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[17:25]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það að skatttekjur hafi hækkað sem hlutfall af landsframleiðslu er vegna þess hvernig skattkerfið er uppbyggt. Það skattleggur menn meira þegar tekjurnar hækka. Mér heyrist oft þegar ég hlusta á hv. stjórnarandstæðinga að vandamálið sé hin óskaplega hækkun launa, að það sé voðalega leiðinlegt vandamál, en mér þykir það mjög gleðilegt vandamál. Við erum einmitt að stefna að því að lækka skattana til móts við það að skattkerfið, tekjuskattskerfið, er þannig uppbyggt að það skattleggur hærri tekjur miklu meira en lágar tekjur. Þær eru skattfrjálsar.

Það að fátæklingar séu farnir að borga skatta er sama vandamálið. Bætur og tekjur, sérstaklega bætur almannatrygginga, hafa hækkað eins og laun. Launin hafa hækkað langt, langt umfram verðlag. Þess vegna fær fólk t.d. minni og minni barnabætur samtals þó að barnabæturnar hafi hækkað á hvern einstakling. Heildarsumma barnabóta er alltaf að lækka, vegna þess að þetta er allt saman tekjutengt eins og Alþýðuflokkurinn kom á í stjórninni 1991–1995. Þegar launin hækka svona óskaplega, það mikla vandamál, fækkar þeim náttúrlega sem eru í svo slæmri stöðu að þeir þurfa barnabætur. Mér sýnist því að það sé í augum sumra meiri háttar vandamál hvað launin hafa hækkað mikið hér á landi. Það sem ég tel vera árangurinn af því að stækka kökuna er hvað launin hafa hækkað mikið, hvað fólk hefur það miklu betra en áður.

Ég er ekki prinsipalt á móti því að lækka virðisaukaskatt. Það kemur vel til greina að lækka hann bara í heild sinni, lækka hann niður í 17% með einu átaki. Það yrði væntanlega að gerast með þeim hætti til þess að hann færi út í verðlagið. En það er náttúrlega eitthvað sem er mjög hættulegt vegna þess að hann gefur ríkissjóði gífurlegar tekjur og menn hafa held ég ekki þorað að taka á því. Ég vil frekar sjá lækkun tekjuskatts og það vill Sjálfstæðisflokkurinn og þess vegna kemur þessi 1% lækkun á tekjuskatti frá næstu áramótum til framkvæmda, vegna þess að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins vill það. Ég er ekki einn á báti þar.