131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[17:31]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að það er svolítið erfitt að rökræða við hv. þm. um þessi mál og kannski önnur. Ég talaði um öfugmælavísur. Mér datt líka í hug Don Kíkóti þegar ég stóð úti í sal og var að velta því fyrir mér með hvaða hætti hægt væri að ræða þessi mál við hv. þm. sem hefur sagt svo frægt er orðið að það sé enginn vandi að lifa af 90 þús. kr. á mánuði. Hann geti gert það og vorkenni í sjálfu sér engum sem þurfi að gera það, það sé alveg hægt að lifa þokkalegu lífi á því.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hefur hv. þm. engar áhyggjur af yfirlýsingum frá ASÍ að skattastefna ríkisstjórnarinnar geti verið olía á eld og muni skapa óróa á vinnumarkaði? Ef hann leggur þetta að jöfnu, tekjuskattslækkun og lækkun á matarskatt hvað varðar tekjur til ríkisins, er þá ekki nær að fara þá leið sem við leggjum til ef það verður til þess að óróinn á vinnumarkaðinum verði minni, olían á eldinn verði kannski ívið minni líka vegna þess sem var talað um áðan um áhrif á verðlag — verður ekki kostnaðurinn við það að fara leið ríkisstjórnarinnar meiri þegar upp er staðið en felst í þeim tölum sem við ræðum út af þessu eina prósenti ef mikill órói verður á vinnumarkaði?

Frú forseti. Mér fannst eiginlega koma sú yfirlýsing frá hv. þm. úr ræðustóli að hann væri ekki jafnaðarmaður, hann vildi ekki nota tekjuskattskerfið til að jafna, heldur eingöngu til að ná í tekjur fyrir ríkið. Það eru engar nýjar fréttir fyrir þann sem hér stendur. Ég hef alltaf vitað að hv. þm. Pétur H. Blöndal er ekki jafnaðarmaður.