131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Aðgerðir gegn félagslegum undirboðum.

94. mál
[13:47]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra um aðgerðir gegn svonefndum félagslegum undirboðum, þ.e. því að launakjör, vinnuaðstæður og aðbúnaður starfsmanna, hvort heldur er af erlendum eða innlendum uppruna, séu ekki í samræmi við hérlenda kjarasamninga, lög og reglur um aðbúnað, öryggi á vinnustöðum o.s.frv. Þessi mál hafa verið mjög á dagskrá og einkum tengst stórframkvæmdunum eystra. Það má segja að þar hafi nánast allt farið úrskeiðis sem svo gat farið hvað varðaði upphaf þeirra framkvæmda og aðkomu erlendra starfsmanna að verkinu. Aðbúnaður var allur mjög í skötulíki og mikil klögumál hafa risið og uppi verið um þann þátt mála. Gengið hefur þrálátur orðrómur um að menn væru starfandi án tilskilinna réttinda, að öryggismálum væru ábótavant. Brunavarnir voru lengi í ólestri og annað í þeim dúr. Alvarlegast er þó kannski að rökstuddar vísbendingar hafa verið uppi um að ætlun aðalverktakans hins erlenda hafi verið að greiða mun lægri laun en samræmast íslenskum kjarasamningum, lágmarkskjörum sem tryggð eiga að vera samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Þetta ástand er að sjálfsögðu ekki einskorðað við virkjunarframkvæmdirnar eystra því að dæmi hafa verið uppi um sambærilega hluti t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Ónefnt járniðnaðarfyrirtæki hefur orðið uppvíst að þrálátum tilraunum til að vera með erlent vinnuafl á skammtímagrunni og komast þannig hjá því að skrá það með eðlilegum hætti inn í landið. Einnig hafa vaknað grunsemdir um að launakjör hafi þá ekki verið sem skyldi. Það ber í vaxandi mæli á því að talsvert sé af erlendu vinnuafli hér, t.d. í byggingariðnaði og við frágang á húsnæði, í múrverki og málningarvinnu og virðist tilhneigingin vera sú að hið erlenda vinnuafl sem sótt er til Austur-Evrópu eða Asíu sé gagngert tekið inn í landið til að vinna óþrifalegustu og erfiðustu eða óvinsælustu störfin. Það er líka þekkt frá nálægum löndum eins og Danmörku að mikil brögð eru að því að reynt sé að ná niður launakostnaði í verkefnum, sérstaklega útboðsverkefnum, með því að ráða inn erlent vinnuafl gjarnan gegnum svonefndar starfsmannaleigur.

Ég hef því leyft mér að spyrja félagsmálaráðherra hvort umfang félagslegra undirboða á íslenskum vinnumarkaði hafi verið kannað sérstaklega, hvort umsvif starfsmannaleigna hafi verið skoðuð sérstaklega með tilliti til hættu á félagslegum undirboðum, hvort félagsmálaráðuneytið hyggist þarna aðhafast eitthvað og hvernig samstarfi þess við aðila vinnumarkaðarins sé háttað hvað varðar varnir gegn félagslegum undirboðum.