131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Stimpilgjald við endurfjármögnun fasteignaveðlána.

106. mál
[14:37]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Til mín er beint nokkrum fyrirspurnum varðandi stimpilgjald við endurfjármögnun fasteignaveðlána.

Í fyrsta lagi er spurt um í hvaða aðildarríkjum OECD stimpilgjöld séu lögð á við endurfjármögnun fasteignaveðlána. Því miður hef ég ekki slíkar upplýsingar haldbærar en get þó vitnað í það sem hv. fyrirspyrjandi gerði sjálf varðandi úttekt Samtaka atvinnulífsins. Slíkri spurningu er auðvitað ekki hægt að svara í munnlegri fyrirspurn og væri eðlilegra að bera fram og óska eftir skriflegu svari, enda kallar þetta á sérstaka gagnaöflun.

Í öðru lagi er spurt hvort ávallt séu innheimt stimpilgjöld við endurfjármögnun fasteignaveðlána, hér á landi væntanlega, og það er þannig. Stimpilgjald er ávallt innheimt við útgáfu skuldabréfa en þó mismikið. Í 26. gr. laga nr. 36/1978, um stimpilgjald, sem eru þau lög sem um þessa hluti gilda hér á landi, er kveðið á um að þegar skuld er endurnýjuð með nýju bréfi skuli innheimta helming þess gjalds er getur um í 24. gr., þ.e. 0,75% í stað 1,5% eða eftir atvikum 0,25 í staðinn fyrir 0,5%. Hæstiréttur Íslands hefur í praxís túlkað þetta ákvæði þannig að það eigi eingöngu við þegar skjal til staðfestu eða tryggingar tiltekinni skuld er leyst af hólmi með nýju skjali og um sama skuldarsamband sé áfram að ræða, þ.e. ákvæðið eigi eingöngu við þegar sami kröfuhafi er á hinu nýja skuldabréfi og því bréfi sem nýja bréfið kemur í staðinn fyrir. Um þetta hefur fallið dómur sem er nr. 63/1999.

Í þriðja lagi er spurt um hvaða rök séu fyrir því að stimpilgjöld séu lögð á í annað sinn í tengslum við endurfjármögnun fasteignaveðlána. Því er til að svara að formlega séð er ekki um að ræða að stimpilgjaldið sé lagt á í annað sinn því að það er um nýjan gerning að ræða. Þannig hefur lagatúlkunin verið fram til þessa. Það sem á sér stað við endurfjármögnun er að nýtt skuldabréf er gefið út og er með sama hætti stimpilgjaldsskylt eins og önnur skuldabréf nema í þeim tilvikum þegar það kemur í stað eldra bréfs og kröfuhafinn er þá hinn sami. Þá er eins og áður kom fram aðeins innheimtur helmingur venjulegs stimpilgjalds.

Í fjórða lagi er spurt hvort ráðherra sé tilbúinn að beita sér fyrir því að hætt verði að innheimta stimpilgjöld við endurfjármögnun fasteignaveðlána. Ég vil svara því til að við höfum rætt um það í mörg ár að gera breytingar á stimpilgjaldakerfinu sem hér er við lýði. Þá hefur einkum verið horft til þess að lækka eða fella niður stimpilgjaldið sem innheimt er í tengslum við lánsskjöl, þ.e. af útgáfu skuldabréfa eða veðskuldabréfa sem tengjast fasteignaviðskiptum. Þetta hefur sérstaklega verið rætt vegna þess að núverandi fyrirkomulag getur í ákveðnum tilvikum mismunað fjármálafyrirtækjum og gert innlendum fyrirtækjum óhægara um vik í samkeppni við erlenda aðila en jafnframt hugsanlega innlendum fyrirtækjum sem eiga erfiðara með að fjármagna sig erlendis en aðrir. Við þekkjum öll þá umræðu. Hins vegar hefur það ekki verið sérstakt markmið í þeirri umræðu almennt séð að draga endilega úr þeim hluta stimpilgjaldanna sem lagður er á við eignayfirfærslu á fasteignum. Ef maður skoðar það mál, eins og gert hefur verið af hálfu Samtaka atvinnulífsins í áðurnefndri könnun sem hv. fyrirspyrjandi vitnaði til og eins og vikið hefur verið að í vefriti fjármálaráðuneytisins nýlega, þá eru víða um lönd lögð miklu hærri stimpilgjöld á sjálfa eignayfirfærsluna þegar eigendaskipti verða á fasteignum en hér tíðkast. Og ef menn leggja saman þetta tvennt, stimpilgjaldið á veðskuldabréfinu sem um er að tefla og fyrirspyrjandinn spyr um og svo aftur það sem varðar gjaldið á eignayfirfærslunni sem slíkri, þ.e. þinglýsingargjaldið, þá er oft um það að ræða að slík gjöld eru lægri hér á landi en annars staðar þegar lagt er saman.

Ég er opinn fyrir því að endurskoða gjaldkerfið í stimpilgjöldum en ég vil ekki gefa hér óábyrg fyrirheit um einhverja lækkun tiltekinna þátta þar eins og kannski liggur undir í þessari umræðu af hálfu þeirra sem leggja fram fyrirspurnina.