131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Umfang skattsvika.

127. mál
[14:56]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég heyrði það á máli hæstv. ráðherra að hann var greinilega með fyrirspurn mína frá fyrra þingi vegna þess að það var enginn annar töluliður í þessari fyrirspurn heldur spurt beint hvenær nefndin mundi skila af sér. Ég hef sýnt nefndinni þolinmæði vegna þess að ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þetta er flókið og erfitt viðfangsefni og vil þá frekar að nefndin taki sér lengri tíma í það og skýrslan sé vel unnin og gagnist okkur í þeirri vinnu sem alltaf þarf að vera stöðugt í gangi, að reyna að fyrirbyggja skattsvikin. Ég veit að hæstv. ráðherra hefur á því mikinn skilning. Hann hefur sýnt fram á það í máli sínu og líka í stuðningi við tillöguna þegar hún var samþykkt á sínum tíma.

Það hefur ýmislegt breyst í skattaumhverfi fyrirtækja frá því að síðasta úttekt var gerð fyrir rúmlega 10 árum. Umsvif fyrirtækja og fjármálaviðskipta hafa vaxið mikið og tekið verulegum stakkaskiptum. Fjármagnsflæði milli landa er orðinn sívaxandi þáttur í atvinnulífinu og það hafa skapast möguleikar á að skrá fyrirtæki erlendis og reikningsfæra umsvif fyrirtækja á erlendum vettvangi, m.a. til skattahagræðis. Það hafa orðið verulegar breytingar á skattalögunum frá því að síðast var gerð úttekt og því er ástæða til að fara yfir þetta aftur eins og ráðherrann hefur samviskusamlega gert með því að framfylgja tillögum frá Alþingi um að úttektin fari fram.

Ég vænti þess að þetta gangi eftir og nefndin skili af sér um næstu mánaðamót og að ráðherrann leggi skýrsluna fyrir Alþingi og við höfum þá tækifæri og tóm til þess að ræða hana á þingi.