131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tryggur lágmarkslífeyrir.

8. mál
[14:24]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Frú forseti. Eins og fram kom í máli kollega míns, hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar, er þetta í fjórða skipti sem þetta þarfa mál er tekið til umræðu hér í þinginu, en því miður hefur það aldrei fengið að fara þá eðlilegu leið að koma til kasta nefnda sem er miður. Því vona ég að þetta máli fái nú að fara lengra en áður hefur tekist og er ég nokkuð viss um að við meðferð slíks máls sem hér er til umræðu muni margt athyglisvert koma í ljós.

Hvernig er málum háttað í dag, frú forseti? Ef maður reynir að færa þetta yfir á almennt mannamál og forðast reglugerðamálið er staða eldri borgara í dag með þeim hætti að þeir greiða 75–80% af umframtekjum sínum, þ.e. yfir 71 þús. kr. til 130 þús. kr. Það eru 75–80% þessara tekna sem fara í skerðingar í dag. Því spyr maður: Er þetta eðlileg þróun á kjörum eldri borgara í landinu? Ég tel svo ekki vera.

Þingmál okkar er í hnotskurn þetta: Við leggjum til að tekjur eldri borgara frá lífeyrissjóðum upp að 50 þús. kr. komi ekki til skerðingar á samsettum bótum lífeyrisþega.

Við getum líka rætt það í stuttu máli hvað það skyldi nú kosta ríkissjóð að fara þá leið.

Í fyrsta lagi eru meðalgreiðslur til lífeyrisþega í dag frá lífeyrissjóðum einhvers staðar á bilinu 46 þús. kr. ef ég man rétt. Ef ég man líka rétt er hlutfall lífeyrisþega í landinu um 20%, sem gefur okkur það að hér eru 40–50 þúsund lífeyrisþegar og meðalgreiðslur þeirra eru 46 þús. kr. Ef mál sem þetta næði fram að ganga þar sem mörkin yrðu 50 þús. kr. þar sem ekki kæmi til skerðingar á samsettum bótum mundi skerðing til ríkissjóðs á tekjum þar að lútandi verða á bilinu 4–5 milljarðar kr. svona fljótreiknað. Hvernig fæ ég þetta út? Við gerum okkur grein fyrir að með 40–50 þúsund lífeyrisþegum í landinu og meðalgreiðslum þeirra upp á 46 þús. kr. á mánuði, þá mundu tekjur daprast hjá ríkissjóði um 23 þús. sinnum fjöldi lífeyrisþega. Það er tala upp á 10–12 milljarða. Við verðum líka að gera okkur grein fyrir að tekjuskattur kemur á móti, hann mun aukast hjá ríkinu, eða sem nemur 38–40% af þessari sömu upphæð. Það gefur okkur það að við erum komin niður í tölu sem hleypur á bilinu 6–7 milljarðar sem yrði sá kostnaður fyrir ríkið, ef þessi leið yrði farin, í stórbættum kjörum eldri borgara í landinu.

Ekki má heldur gleyma því að við vitum að þessir 6–7 milljarðar sem kæmu aukalega í vasa eldri borgara sem sannarlega þurfa á þeim að halda færu ekki inn á einhvern söfnunarreikninginn. Þessir peningar yrðu notaðir og þeir færu áfram út í þjóðfélagið og út í samfélagið og kæmu í enn frekari mæli í tekjum til ríkissjóðs t.d. í formi virðisauka, matarskatts o.s.frv.

Ég geri því ráð fyrir fljótt á litið að þessi tillaga Frjálslynda flokksins mundi kosta ríkissjóð um 4–5 milljarða kr.

Hvað mundi ávinnast? Þeir sem þekkja til sögu lífeyrissjóðskerfisins á Íslandi, þeir eru nú flestir betri en ég í því, gera sér grein fyrir þeim þremur meginstoðum sem byggja upp lífeyrissjóðskerfi Íslendinga í dag sem eru grunnstoðin, þ.e. almannatryggingakerfið, í öðru lagi lífeyrissjóðskerfið sem er ávöxtunarleiðin og verður nú kannski ofan á áður en langt um líður og verður þá sú grunnstoð sem við leitumst eftir og svo í þriðja lagi þessi viðbótarsparnaður sem margir hverjir hafa valið sér í dag. Grunnstoðin í dag, almannatryggingakerfið, gerir það að verkum að komið er á móts við einstaklinga í landinu sem aldrei nutu þess að vera úti á vinnumarkaði, t. d. húsmæður og fleiri.

Ef þetta mál nær fram að ganga þar sem við tryggjum að eldri borgarar fá ekki skerðingu á fyrstu 50 þús. krónunum frá lífeyrissjóðum, þá komum við til móts við um 25–35% eldri borgara í dag sem eiga um mjög sárt að binda í fjárhagslegum skilningi. Það er mikið þarfaþing að þetta mál nái í gegn.

Hverjir hafa svo mælt með þessari leið? Með leyfi, frú forseti, vil ég vitna í skýrslu ASÍ, Velferð fyrir alla, en þar segir á bls. 37:

„Alþýðusamband Íslands leggur áherslu á að afkomuvandi aldraðra sé fyrst og fremst vandi þeirra sem hafa starfað á almennum vinnumarkaði og áttu ekki kost á að greiða iðgjald til lífeyrisjóðs fyrr en hann varð almennur með kjarasamningum. Hann er enn fremur vandi þeirra sem ekki hafa myndað neinn lífeyrisrétt, þar sem þeir hafa ekki komist á vinnumarkað vegna heimilisstarfa, fötlunar eða langvarandi veikinda og hafa af þeim sökum þurft að reiða sig á lágmarksrétt frá almannatryggingum.“

Áfram segir að Alþýðusambandið leggi því áherslu á eftirfarandi heildaraðgerðir, með leyfi forseta:

„Til að jafna þennan mun þarf að beita tekjutengdum lífeyri frá almannatryggingum með frítekjumörkum vegna lífeyris frá lífeyrissjóðum. Tekjutengingin þarf að breytast í samræmi við auknar greiðslur frá lífeyrissjóðunum til eftirlaunaþega.“

Akkúrat þarna kristallast sú leið sem Frjálslyndi flokkurinn leggur hér fram í dag. ASÍ mælir með þeirri leið. Það er sorglegt til þess að vita að þetta mál hafi verið tekið til umræðu hér á Alþingi Íslendinga nú í fjórða skiptið en aldrei fengið tilhlýðilega meðferð í störfum nefnda. Er það því von mín að málið fari nú lengra, því mikil þörf er á kjarabótum eldri borgara í landinu og ég vonast innilega til að málið fái þá þörfu umræðu sem það sannarlega á skilið.