131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Strandsiglingar.

161. mál
[16:51]

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég trúi því mjög vel að hv. þm. óttist ekki að tala tæpitungulaust um ríkisrekstur. Það er alveg rétt sem hv. þm. bendir á að grundvallaratriðið fyrir því að slík þjónusta í sjóflutningum hringinn í kringum landið yrði notuð, er að siglingar séu öruggar og tíðnin sé hæfileg hvað sem það svo sem þýðir. En þar hangir þetta auðvitað saman. Þess vegna vísa ég til þess hversu mikilvægt er að atvinnurekendur úti á landsbyggðinni, sem kvarta mjög undan auknum kostnaði eftir að flutningar eru að færast yfir á vegina af sjónum og eru dýrari og ógna tilveru fyrirtækjanna, skipuleggi sig vitandi að þetta eru hagsmunir þeirra fyrirtækja og byggðarlaga. Það er mikilvægt að þeir skipuleggi sig saman til þess að búa þennan markað til. Það virðast Vestfirðingar hafa gert. Þar hafa verið mjög reglulegar og áreiðanlegar siglingar og þess vegna hefur markaðurinn notfært sér þjónustuna og þar með skapað rekstrargrundvöll fyrir Jaxlinn. Og ég trúi því, af því að markaðurinn er auðvitað miklu stærri á Norðurlandi og fyrir austan og hringinn í kringum landið en eingöngu á Vestfjörðum, að ef atvinnurekendur skipuleggja sig með þessum hætti og búa þannig til markað þá verði auðveldara að gera þessar siglingar það öruggar og tíðar að það ýti enn frekar undir að menn notfæri sér þjónustuna.