131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Strandsiglingar.

161. mál
[16:56]

Örlygur Hnefill Jónsson (Sf):

Herra forseti. Það er ljóst að það er öllu landsbyggðarfólki mikið áhyggjuefni ef þessi hagkvæmi flutningamáti verður aflagður. Þeir sögðu það til forna suður við Miðjarðarhaf að siglingar væru nauðsyn, „navigasjónin“ var nauðsyn. Þá var Íslands ógæfa hvað mest á þjóðveldisöld þegar við hættum siglingum en núna stöndum við frammi fyrir þessum kostum.

Það er líka spurning hvaða áhrif þetta hefur á kennaradeiluna. Þetta er kannski langsótt en auðvitað mun það hafa áhrif á rekstur ef umsvif og tekjur af strandsiglingum fjölda sveitarfélaga minnka, af því að fjárhagsleg aðkoma sveitarfélaganna er að höfnunum. Og tekjur hafnasjóða munu stórlækka þar sem mikið fjármagn liggur í höfnum vítt um land.

Auðvitað mun þetta líka hafa áhrif á störf, t.d. við hafnirnar og störf sjómanna. Flutningar munu áfram verða í einhverju horfi þannig að störf geta flust til en þetta mun hafa gríðarlega mikil áhrif. Menn standa frammi fyrir staðreyndum eins og hv. 8. þm. Reykv. s., Guðmundur Hallvarðsson benti á áðan. Það er talað um hraða og sveigjanleika og að byggðaþróunin hafi haft í för með sér að birgðasöfnunin er ekki með sama hætti og áður. Menn eru sammála um að það gæti verið 30% ódýrara að flytja eftir sjóleiðinni en samt er hún ekki notuð sem skyldi. Frammi fyrir þessu stöndum við.

Áhrif þess að öll þungaumferð færist á vegakerfið mun orsaka mikið slit á vegum. Hvað umferðaröryggi í vegakerfinu varðar er einnig spurning um hvernig samgönguyfirvöld ætli að bregðast við auknum þungaflutningum á þjóðvegunum. Það má gagnrýna allar ríkisstjórnir og fyrir margt en mér finnst þó núverandi ríkisstjórn hafa staðið sig hvað best í samgöngumálum. Víða á landsbyggðinni má sjá ákveðna uppbyggingu í vegakerfinu. Margt hefur vel tekist og menn eiga að njóta þess sem þeir gera vel. T.d. er verið að bæta þjóðveg 1 eftir suður- og austurleiðinni með göngum undir Almannaskarð. Ég hefi beitt mér fyrir því og talað fyrir styttingu á vegabótum á þjóðvegi 1 milli Reykjavíkur og Akureyrar og reyndar áfram að Mið-Austurlandi. Núverandi þjóðveg 1 má að mínu viti stytta um 10% milli Reykjavíkur og Akureyrar. Á Mið-Norðurlandi má stytta hann um 20 km og hluti af þeirri styttingu kostar um 900 millj. en sparar 310 millj. á ári samkvæmt svari samgönguráðherra við fyrirspurn minni. Sú tala miðaðist við það þegar bensínverð var um 90 kr. en er nú orðið um 110 kr. og ég reikna því með að slík stytting mundi borga sig upp á tveim árum. Það er auðvitað ófært að slíkur aukinn kostnaður verði á þessum miklu flutningum á svo langri leið og umferðaröryggi kemur einnig til.

Sundabraut, sem er mikið mannvirki og mun verða mikil lyftistöng fyrir höfuðborg og landsbyggð varðandi aðkomu til Reykjavíkur, má stytta um 8,5 km. Það má laga margar beygjur á þjóðveginum og þó ekki sé nema um 100, 200 eða 300 metra að ræða þá telur þetta allt á langri leið. Í Borgarfirðinum þarf að laga veginn og einnig veginn í Norðurárdal í Skagafirði. Síðan þarf auðvitað að huga að dýrari aðgerðum ef sjóflutningar fara allir á þjóðveginn. Tökum t.d. Öxnadalsheiðina, Bakkaselsbrekkuna og Hábunguna sem er erfiðasti hjallinn. Ég er alveg viss um að þar mætti gera stutt jarðgöng svipað og er verið að gera í Almannaskarði og þá mundu bílstjórar þungaflutningsbíla losna við að þurfa að setja keðjur á bílana fyrir þá brekku. Það verður að huga að þessu og það fyrr en seinna þar sem ljóst er að þessir flutningar fara af stað innan tveggja mánaða. Hv. 5. þm . Norðaust. Steingrímur J. Sigfússon benti réttilega á að þetta væri ótímabært en þetta er bara staðreynd sem við stöndum frammi fyrir. Það er komið að þessu tímamarki. Það verður engin önnur leið en þjóðvegur 1 sem tekur við þessari umferð, menn geta talað um aðra valkosti í vegamálum og samgöngumálum en þjóðvegur 1 er það sem við erum með núna. Það á að bæta þá fjárfestingu, nýta hana betur. Og gera það tafarlaust því þar er um stórsparnað að ræða og ofan á það bætist umferðaröryggi og þarfir flutningsaðila.

Ég ítreka að ef sjóflutningarnir verða komnir á vegina eftir tvo mánuði verður að gera flutningsaðilum kleift að fara nokkuð hindrunarlaust um erfiðar brekkur og þröskulda, þeim verður að ryðja úr vegi. Og af því að hér eru tveir hv. þingmenn, Guðmundur Hallvarðsson og Hjálmar Árnason, sem báðir sitja í þeirri merku nefnd, samgöngunefnd, væri mjög kært að heyra viðhorf þeirra til þessara hluta.