131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Kaup Landssímans í Skjá einum.

[15:56]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Herra forseti. Sú sérkennilega staða er komin upp að í skjóli Sjálfstæðisflokksins er fyrirtæki í nær 100% ríkiseign og í markaðsráðandi stöðu farið að misnota aðstöðu sína í samkeppni um að ná undirtökunum á fjölmiðlamarkaði. Það vekur líka furðu að Framsóknarflokkurinn virðist ekkert hafa við það að athuga að í aðdraganda á sölu á Símanum sé skattfé, fé almennings, notað til þess að ná meiri hluta í einkarekinni sjónvarpsstöð sem sumir líta á sem áhættufjárfestingu í stað þess að fjármagna frekar uppbyggingu dreifikerfisins. Hvaða forsendur búa baki þessum kaupum? Var verið að bjarga fjárhagslega illa stöddu fyrirtæki og þá í hvaða tilgangi? Kannski til einkavinavæðingar þegar búið er að styrkja fjárhagsstöðu fyrirtækisins með almannafé.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Hver er lína flokksins frá í sumar um að markaðsráðandi fyrirtæki megi ekki eiga í fjölmiðli? Gildir sú lína bara fyrir sum markaðsráðandi fyrirtæki en ekki önnur? Eru sjálfstæðismenn virkilega búnir að snúa stefnu sinni svo á hvolf að í stað þess að einkavæða ríkisfyrirtæki ríkisvæði þeir einkafyrirtæki? Hvar eru prinsippin í stefnu flokksins í þessu efni? Eru það kannski bara viðskiptaáform einnar valdablokkar í atvinnulífinu sem móta stefnu flokksins frá einum tíma til annars? Það verður að rannsaka forsendu fyrir þessum kaupum eins og við í Samfylkingunni höfum lagt til að Ríkisendurskoðun geri þar sem m.a. verði lagt mat á arðsemi þessarar fjárfestingar og hvaða áhrif hún hefur á verðmat á Símanum.

Það verður líka að skoða þá hagsmunaárekstra sem þessu máli tengjast, bæði pólitíska og viðskiptalega. Fyrr getur sala á Símanum ekki farið fram. Allur ferill þessa máls vekur vissulega upp tortryggni og almenningur sem borgar brúsann af öllu saman á heimtingu á því að engu verði leynt.