131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[11:39]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er eflaust hægt að vinna þetta á ýmsan hátt. Það hefur svo sem verið unnið á ýmsan hátt að því að reyna að átta sig á þróun byggðar. Sú aðferð sem hefur verið beitt og er ekki beitt núna er sú aðferð að teikna landið upp í mismunandi litum og segja: Þetta er vaxtarsvæði og hitt er hnignandi svæði o.s.frv. Þessu hefur verið hætt og ég held að það sé mikilvægt. Ég er þó fyrst og fremst að greina frá því hvernig gengur með þau verkefni sem lögð var áhersla á í byggðaáætlun. Það er mitt hlutverk. Og það kemur fram í þessari skýrslu. Hvort að hún er fullnægjandi og hvort hún veitir fullnægjandi svör verður hv. þm. að meta en a.m.k. er gerð tilraun til að greina frá því hvar við stöndum með þessi verkefni.