131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[12:07]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að svara nokkrum af þeim spurningum sem hv. þm. Drífa Hjartardóttir beindi til mín. Hún minntist á að ég hefði talað um að margt jákvætt hafi verið gert. Það er sannarlega rétt, en má ég þá snúa þessu við og spyrja hv. þm. sem er landsbyggðarþingmaður eins og ég: Er hv. þm. sammála mér um að þrátt fyrir að margt jákvætt sé gert vanti samt mjög margt eins og t.d. að jafna rekstrarskilyrði atvinnufyrirtækja og að jafna búsetuskilyrði fólks?

Varðandi það hvort öll sveitarfélög nýti tekjustofna sína. Ég hef ekki hugmynd um það. En auðvitað er það líka hluti af vandamálunum ef sveitarstjórnir þurfa að hækka skatta sína mikið. Það skiptir í raun og veru engu máli hver stjórnar þeim sveitarfélögum, hvort það eru sjálfstæðismenn, samfylkingarmenn eða einhverjar sameiginlegar stjórnir. Ég kann ekki að reikna út hve mikið meiri tekjur sveitarfélögin gætu fengið ef þau nýttu útsvarið sitt í topp.

Ég minni líka á skammir ríkisstjórnarinnar til sveitarfélaganna fyrir aðhaldsleysi í fjármálum sínum og skattheimtu. Stundum er það svo.

Varðandi eignarhaldsfélögin og milljarðinn. Ég hef þá tölu frá Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, og fyrrverandi varaformanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, núverandi hæstv. félagsmálaráðherra Árna Magnússyni. Þeir töluðu um það á sínum tíma að þetta hafi skert tekjur sveitarfélaganna um einn milljarð.

Í lokin varðandi skattaívilnun. Má aldrei gera neina skattbreytingu? Jú, það má gera og ég hældi þeim fyrir það sem gert hefur verið, að lækka skatta á atvinnustarfsemi. En ég spyr á móti hv. þm. Drífu Hjartardóttur, og ég hef sýnt fram á það með rökum, virðulegi forseti: Getur verið að síðasta skattkerfisbreytingin hafi mismunað mjög fyrirtækjarekstri? Og má ég minna hv. þm. á hvernig skattkerfisbreytingin kom út fyrir sérskattumdæmi Vestmannaeyja sem er í kjördæmi hv. þm.? (Forseti hringir.) Fyrirtækjarekstur í Vestmannaeyjum borgaði að mig minnir 30 millj. kr. meira (Forseti hringir.) eftir skattkerfisbreytinguna en fyrir.

(Forseti (ÞBack): Má ég minna hv. þm. á að virða ræðutíma.)