131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[12:21]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Af því að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson gerir hafnirnar enn að umtalsefni og af hverju menn noti þær ekki skulum við taka Vestfirði sem dæmi. Eru strandsiglingar Eimskips ekki bara til Ísafjarðar? Þá er eftir allt suðursvæðið. Ekki væri skynsamlegt að flytja vöruna með skipi til Ísafjarðar og keyra hana svo suður á Patreksfjörð. Við skulum hafa í huga að þetta er hluti af vandamálinu. (Gripið fram í.)

Fyrir norðan hafa skipin hins vegar komið við á Sauðárkróki, Siglufirði, Akureyri og Húsavík, á fleiri staði. Ég sagði áðan að mér fyndist fullkomlega eðlilegt að skoða hvort haldið væri úti strandsiglingum eins og á Ísafirði með skipulegum og góðum ferðum út frá því.

Hitt atriðið sem hv. þm. nefndi var með fiskflutningana. Það snýr að skattheimtunni. Ímyndum okkur 40 feta gám af fiski á bryggju. Ef gámurinn er tekinn, settur á sleða og keyrður suður í flutningabíl þarf viðkomandi ekki að borga hafnargjöldin og hvað þetta allt saman heitir til hafnarinnar og ég tek það skýrt fram að gámurinn er á hafnarsvæðinu. Ef hann er hins vegar hífður í hina áttina um borð í skipið fær hann öll gjöldin á sig. Það er náttúrlega dálítið hjákátlegt.

Virðulegi forseti. Ég hygg og vona að hv. þm., formaður samgöngunefndar, komi að umræðunni á eftir um byggðaáætlunarskýrsluna. Ég trúi ekki að menn þurfi að gretta sig vegna þess. (Gripið fram í.) Ég trúi ekki öðru vegna þess að þetta er það mikilvægt í skýrslunni, sjóflutningur og annað slíkt, og hygg að við munum ræða þetta fram eftir degi. Ég vona að hv. þm. sem hefur jafnmiklar áhyggjur af málinu og ég og við höfum oft rætt saman komi með innlegg í umræðuna alveg eins og maður bíður spenntur og miklu spenntari eftir því að hæstv. samgönguráðherra komi.