131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Áfengisauglýsingar.

[13:38]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á áfengismálum og áfengisneyslu sem hefur farið hér ört vaxandi á liðnum áratug. Ég þakka sérstaklega fyrir það að vakin skuli athygli á þessum málum með umræðu utan dagskrár, ekki síst vegna þess að mér gefst þá tækifæri til að ræða niðurstöðu fundar sem Ísland stjórnaði á vettvangi Norðurlandanna á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn á mánudaginn var um áfengismál. Á þessum fundi gerðist það sögulega og ánægjulega í norrænu samstarfi að norrænir ráðherrar málaflokksins sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu og töluðu þannig einum rómi í nokkrum meginatriðum. Þetta eitt sér markar í fyrsta lagi nokkur tímamót því afstaða og aðstæður landanna eru mjög mismunandi eins og kunnugt er.

Í öðru lagi eru norrænu ráðherrarnir sammála um að áfengi beri ekki að skoða sem hverja aðra vöru. Í því felst sú sameiginlega skoðun að gilda skulu sérstakar reglur um þessa sérstöku vöru, áfengið. Menn eru sammála um að neysla áfengis hafi víðtækar heilsufarslegar afleiðingar og í þessu felst líka sú skoðun að áfengisneysla hafi í mörgum tilvikum mjög alvarlegar félagslegar afleiðingar.

Í þriðja lagi sammæltust norrænu ráðherrarnir svo um að halda fram þessari stefnu Norðurlandanna á vettvangi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og síðast en ekki síst gagnvart Evrópusambandinu. Í því sambandi samþykktu ráðherrarnir að hvetja til þess að Evrópusambandslöndin hækkuðu skattlagningu á áfengi í því skyni að draga úr neyslunni og koma í veg fyrir ofneyslu. Vandinn í Evrópusambandslöndunum er sá mikli munur sem er á skattlagningu áfengis. Fram hefur komið að skattlagningin er tuttuguföld í Svíþjóð borið saman við Búlgaríu, svo dæmi sé tekið.

Varðandi heilsufarslegar afleiðingar er rétt að taka það fram að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lítur svo á að ofneysla áfengis sé einn þeirra sjö þátta sem valdi flestum sjúkdómum sem ekki teljast til smitsjúkdóma. Áfengi er í þriðja sæti áhættuþáttar sem þyngst vegur í þeim sjúkdómum sem valda meira en 70% sjúkdómsbyrðar samfélaganna á Vesturlöndum.

Áfengisneysla hefur farið ört vaxandi á Norðurlöndum undanfarin missiri. Ísland er þar ekki undantekning. Áfengisneysla hér hefur aukist meira en annars staðar, eða um 37% frá árinu 1995 mælt í alkóhóllítrum. Til samanburðar er neysluaukningin í Svíþjóð 11% og í Noregi 23%. Hér er um opinberar sölutölur að ræða.

Í yfirlýsingu sem norrænu heilbrigðis- og félagsmálaráðherrarnir sendu frá sér að loknum fundinum á Norðurbryggju sem ég gat um áðan er hvatt til aukinnar samvinnu í áfengismálum á vettvangi Norðurlandanna. Það er hvatt til þess að ekki sé litið á áfengi sem hverja aðra vöru, heldur vöru sem hefur áhrif á heilbrigði þjóða og félagslegar aðstæður í löndunum. Það er líka hvatt til þess að hver þjóð fyrir sig fylgi virkri áfengisstefnu sem miðist við að draga úr neyslunni sem hefur aukist mjög í öllum löndunum, ekki síst á Íslandi þegar litið er t.d. yfir liðin tíu ár.

Í yfirlýsingu ráðherranna er bent á að alþjóðavæðing og alþjóðleg viðskipti hafi torveldað löndunum að framfylgja áfengismálastefnu sem ákvörðuð er í hverju landi fyrir sig og lýsa ráðherrarnir áhyggjum af þessu.

Norrænu heilbrigðis- og félagsmálaráðherrarnir eru þeirrar skoðunar að Norðurlöndin verði að vinna saman að því að halda fram heilbrigðis- og félagslegum sjónarmiðum á þeim alþjóðlega vettvangi þar sem teknar eru ákvarðanir sem geta haft áhrif á stefnuna í áfengismálum. Hvatt er sérstaklega til þess að Norðurlöndin beiti sér fyrir því að sjónarmiðum lýðheilsu verði gert hátt undir höfði á vettvangi Evrópubandalagsins og Evrópska efnahagssvæðisins.

Bein svör mín við spurningum hv. þingmanns eru þessi:

Af því sem hér er sagt á undan er heilbrigðismálaráðherra ekki þeirrar skoðunar að áfengi eigi að auglýsa eins og hverja aðra vöru, enda gengur það gegn lögum. Það er bannað á Íslandi að auglýsa áfengi. Heilbrigðisráðherra treystir því að þeim lögum sé framfylgt í samræmi við vilja Alþingis. Að öðru leyti vísa ég til þess svars sem ég gaf við þessari fyrirspurn í vor í fyrirspurnatíma hér á Alþingi, og fyrirspyrjandi vitnaði reyndar til.