131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[14:10]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég hef þá á nýjan leik fyrir hönd okkar þingmanna umræður um skýrslu iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar sem fram fór fyrir hádegi áður en umræðan um áfengisauglýsingar upphófst. Ég ætla aðallega að halda mig við skýrslu hæstv. ráðherra en gera minna efni úr ræðu hennar sem mér fannst vera svolítið í 17. júní stíl hæstv. landbúnaðarráðherra þar sem allt er svo bjart og fagurt að hvergi ber skugga á.

Það er auðvitað gott að menn séu bjartsýnir og ekki á að tala úr mönnum kjark að kljást við málin en slík bjartsýni má ekki vera byggð á botnlausu óraunsæi eða fullkominni afneitun. Það er öllu verra ef fleiri en hæstv. landbúnaðarráðherra eru á slíku algeru afneitunarstigi gagnvart viðfangsefnum sínum að engar efasemdir komast að, að menn sannfæra sig um að allt sé í himnalagi og þar með þurfi ekki að hafa áhyggjur af nokkrum sköpuðum hlut. Þetta er líka taktík, þegar menn koma og vekja athygli á því sem aflaga þá fer er upphafinn söngurinn um að menn eigi ekki að vera of neikvæðir og sjá allt svart, það megi ekki draga kjarkinn úr mönnum og það megi ekki gera of lítið úr möguleikunum á landsbyggðinni og hvað það nú er. Þetta heyrir maður æðioft í umræðunni um byggðamál og ég er löngu vaxinn upp úr því að láta þetta hafa mikil áhrif á mig. Ég held að það verði að ræða hlutina nákvæmlega eins og þeir eru. Það er ekkert fyrir einhvern orðavaðal á blaði gefandi, hvort sem það er í skýrslum eða ræðum ráðherra, ef verkin þýða eitthvað allt annað. Þess vegna skulum við fara aðeins yfir skýrslu ráðherrans og hin fallegu orð í byggðaáætlun. Ég skal þá taka að mér að vera umboðsmaður þess vonda á staðnum og vera leiðinlegar og fara yfir það hvaða innstæður eru fyrir ýmsu af því sem þarna hefur verið sett á blað eða hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni. Tökum til að mynda staflið a í meginþáttum byggðaáætlunar, að draga úr mismun á lífskjörum og afkomumöguleikum fólks milli byggðarlaga í landinu. Hvernig miðar mönnum í þeim efnum? Aftur á bak. Aðstöðu- og launamunur vex ár frá ári.

Tökum launaþróunina. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra kallar fram í nei, að það sé ekki að draga í sundur í lífskjörum á landsbyggðinni og t.d. á suðvesturhorninu. Hefur hæstv. ráðherra aldrei heyrt af rannsóknum kjararannsóknarnefndar? Hvað stendur í nýjasta hefti kjararannsóknarnefndar þegar annar ársfjórðungur 2004 er gerður upp? Þar kemur fram að enn dregur í sundur í launaþróun á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Laun á höfuðborgarsvæðinu hækkuðu um 4,3% en laun utan höfuðborgarsvæðisins um 3,6%. Enn einn ársfjórðungurinn bætist í sarpinn þar sem dregur í sundur í launaþróuninni. Þetta er eitt af því allra neikvæðasta sem í gangi hefur verið undanfarin ár. Gjáin í launum milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar er sífellt að breikka, m.a. vegna þess að ýmiss konar vel launuð stjórnunarstörf, góðar tekjur í sjávarútveginum, hafa látið mjög undan síga. Höfuðstöðvar fyrirtækja hafa flust á suðvesturhornið, útibú sitja eftir í byggðarlögunum þar sem hæst launuðu störfin hafa verið skorin ofan af.

Frú forseti. Ef við tökum nokkrar stéttir og skoðum hvernig þetta er í veruleikanum hefur verkafólk að meðaltali tæplega 160 þús. kr. í heildarlaun, en 140 þús. kr. á landsbyggðinni. Þar munar rúmum 17 þús. kr. Hjá iðnaðarmönnum er munurinn einna minnstur, en þó eru um 8 þús. kr. hærri meðallaun á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.

Þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólk hefur að meðaltali tæplega 45 þús. kr. hærri laun á mánuði á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Mestur er þessi munur hjá stjórnendum sem hafa yfir 100 þús. kr. hærri laun að meðaltali á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni, tæpar 449 þús. kr. á höfuðborgarsvæðinu og 343.100 á landsbyggðinni. Sá munur er að aukast samkvæmt vönduðustu gögnum sem við höfum í höndunum um þessi mál, rannsóknum kjararannsóknarnefndar.

Svo mikið fyrir þau orð um að markvisst sé unnið að því að draga úr mun á lífskjörum og afkomumöguleikum fólks milli byggðarlaganna í landinu. Svo bætist við að það hallar á landsbyggðina á mjög mörgum öðrum sviðum. Dregið hefur verið úr jöfnun af hálfu stjórnvalda undanfarin ár. Síðast í vor flutti sá sami hæstv. ráðherra og hér á undir frumvarp um að fella niður t.d. flutningsjöfnun á sementi. Flutningsjöfnun á olíuvörum heldur ekki vegna þess að menn fela núna mismunandi verð í þessum vöruflokki í formi afslátta og þar fram eftir götunum. Dregið hefur verið úr ýmiss konar jöfnunaraðgerðum og einkavæðing og markaðsvæðing margra þátta hefur leitt til þeirrar viðhorfsbreytingar að menn hætta að skilgreina hlutina sem þjónustu, sem almannaþjónustu þar sem menn hafa skyldum að gegna, og markaðslögmálin eru innleidd. Á hverjum bitnar það, hæstv. ráðherra?

Stafliður b í meginþáttum byggðaáætlunar er að efla sveitarfélögin. Hvernig gengur það? Hefur mikið áunnist í því að efla sveitarfélögin undanfarin ár? Þá þýðir ekki að vísa í einhver framtíðarplön. Menn hafa haft ærinn tíma til þess. Framsóknarflokkurinn er búinn að fara með félagsmálaráðuneytið í á tíunda ár. Hvernig hefur gengið að efla sveitarfélögin? Þau hafa safnað skuldum hvert einasta ár sem framsóknarmaður hefur setið í félagsmálaráðuneytinu. Það er staðreynd. Og eru enn að því. (BJJ: Hefur ekkert verið framkvæmt þar?)

Síðan mætti fara yfir margt fleira, frú forseti. Hér er t.d. talað um að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi. Mest var nú mærðin í máli hæstv. ráðherra þegar hún talaði um stóriðjuframkvæmdirnar á Austurlandi og allt hið góða sem af þeim hlytist. Hæstv. ráðherra útskýrði að vísu ekki hvernig stæði þá á því að íbúunum fækkaði engu að síður í Austfirðingafjórðungi á fyrri helmingi þessa árs. Það verður tæplega flokkað undir fjölbreytni í atvinnulífi, a.m.k. ekki í öðrum byggðarlögum og öðrum landshlutum, sem þarna er gert.

Fjálglega er talað um þróunarstarf í atvinnumálum, nýsköpunarstarf o.s.frv. Þetta höfum við allt heyrt. Á fót eru settar ýmsar stofnanir og ýmis batterí í þeim efnum en hvað er svo að gerast í reynd þegar grannt er skoðað? Það er algert fjársvelti gagnvart nýsköpun í atvinnulífinu, í hinu almenna fjölbreytta atvinnulífi, sérstaklega á landsbyggðinni. Aðgangur til nýsköpunar í atvinnumálum á landsbyggðinni er minni nú en hann hefur verið um langt árabil. Af hverju er það? Það er af því að enginn er að fjárfesta. Það er ekkert laust fé. Það er gat í fjárfestingarmálum í þeim efnum. Nú brosir hæstv. ráðherra alveg út að eyrum yfir þessu bulli. Ég man að hæstv. ráðherra nefndi 700 milljónirnar ... (Gripið fram í.) — Ja, ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra telji þetta vera mikið bull. — Það var vitnað í 700 milljónirnar í Byggðastofnun.

Hver er staðan? Hvernig meta fagaðilar hana? Þeir gera það þannig að það sé fjárfestingargat. Vissulega er af veikum mætti verið að reyna að gera ýmislegt til að kanna möguleika og skoða tækifæri í gegnum atvinnuþróunarfélög, nýsköpunarmiðstöð, svo langt sem það nær, þótt þar séu ákaflega litlir fjármunir á ferðinni. Hvað tekur svo við? Hvað tekur við? Ekkert fjármagn er að leita í frekari uppbyggingu fyrirtækja úti um landið. Það sem var þó til staðar í Nýsköpunarsjóði og framtakssjóðum á sínum tíma er búið. Það er búið að binda það allt saman. Nýsköpunarsjóður er ekki að fjárfesta eina einustu krónu í nýjum tækifærum um þessar mundir. Hann á nóg með að verja það sem komið er.

Ég er ekki bara að túlka þetta svona. Ég hef í höndunum gögn frá einmitt Nýsköpunarsjóði þar sem beinlínis er dregið upp að þar sé það sem kallað er fjárfestingargat. Ef við tökum ferlið í nýsköpun fyrirtækis eða þróun fyrirtækis og höfum fjárþörfina hér á lóðrétta ásnum og þroskasögu fyrirtækisins eða þróun eða aldur á hinum lárétta er það þannig að þótt eitthvað sé reynt í upphafinu, t.d. í formi stuðnings við að gera viðskiptaáætlanir og kortleggja möguleika, blasir við að um leið og fjárþörf fyrirtækisins vex, um leið og komið er upp í uppbyggingarfasann, kemur gat. Það er enginn að leggja neina peninga sem nokkru nemur fyrr en að fyrirtækin eru orðin svo stór að þau vekja athygli stórfjárfestanna. Yfirleitt gerist það ekki fyrr en þau eru komin á markað og búið að skrá þau. Hvert leitar fjárfestingarfjármagn stóru aðilanna í dag? Úr landi. Það streymir allt úr landi. Öflugir fjárfestar sem voru til, t.d. á níunda og tíunda áratug síðustu aldar, eru í grófum dráttum hættir að fjárfesta innan lands.

Fjárfestingarsjóðirnir hafa runnið saman í stærri einingar og þeir nenna ekki að líta á hlutina fyrr en um milljarðaveltu er að ræða. Niðurstaðan, mat sérfræðinga, t.d. í nýsköpunarsögu er sú að það sé algert fjárfestingargap frá upphafsskrefunum og þangað til fyrirtækin, þau fáu sem því ná þá, eru orðin nógu stór til að vekja athygli stórfjárfestanna og stofnanafjárfestanna.

Nýsköpunarsjóður, framtakssjóðirnir, Byggðastofnun — við erum að tala um smáaura borið saman við þörfina sem í raun og veru þyrfti að sinna. Þetta er bara svona, frú forseti. Það þýðir ekkert að setja falleg orð á blað um eitthvað alveg gagnstætt ef engar innstæður eru fyrir því.

Ég held að eitt það langalvarlegasta sem steðjar núna að landsbyggðinni hvað þessa hluti snertir sé hversu lítið, því miður, er að gerast hvað varðar raunverulega grósku að þessu leyti, þ.e. hugmyndirnar eru til staðar, þær eru margar, en um leið og á að fara að taka á, byggja fyrirtækin eitthvað upp, koma þeim í stand til þess að hefja framleiðslu eða umtalsverða starfsemi eru gríðarlegir erfiðleikar við að fá til þess fjármögnun, alveg sérstaklega úti um landið. Við vitum alveg hvernig bankarnir og fleiri aðilar hafa tekið að hegða sér upp á síðkastið, það er nánast það sama og að lýsa því yfir að menn geti sleppt því að reyna ef póstnúmerið byrjar á hærri tölu en einum eða tveimur. Þetta er bara þannig, því miður.

Ég veit að hæstv. ráðherra þekkir það vel sjálf, af ferðalögum t.d. um kjördæmi okkar, hvílíkur rosalegur barningur það hefur oft verið fyrir fyrirtæki sem eru þó búin að sanna sig að fá fyrirgreiðslu, að fá bara lágmarksfjármögnun jafnvel gegn fyrstu veðum í húsnæði eða skipum eða hverju sem er. Það verður auðvitað að ræða þessa hluti, frú forseti, eins og þeir eru.

Ég held að bágur fjárhagur sveitarfélaganna, erfiðleikar hvað varðar þróunarstarf og sérstaklega uppbyggingu í atvinnulífinu, sem og það að dregið hefur í sundur hvað varðar lífskjör og aðstöðu að ýmsu leyti milli landsbyggðar og þéttbýlisins, einkum suðvesturhornsins, sé það sem er mönnum langmótdrægast í byggðalegu tilliti. Það sem þarf er ekki bara það að menn komi með eitt stykki stórlausn í pakka og þar með gufi allur vandi upp, eins og einhverjir menn telja sér kannski trú um að sé að gerast á Austfjörðum núna. Reynslan af því mun verða sambærileg og annars staðar, því miður, ef menn taka ekki á gagnvart þeim þáttum sem með þurfa þá að fylgja ef menn eiga að geta nýtt sér slíkt og unnið úr því. Bæta þarf hinar almennu aðstæður til búsetu. Hvernig gera menn það? Menn gera það með því að bæta hinar undirliggjandi forsendur búsetunnar, í formi bættra samgangna, bættra fjarskipta, greiðari aðgangs að menntun og þjónustu, að tryggja að almannaþjónustan sé til staðar og annað í þeim dúr.

Á hvaða braut er ríkisstjórnin í þeim efnum, t.d. með einkavæðingu Landssímans? Er líklegt að þegar frá líður verði það sérstaklega til góðs möguleikum afskekktari svæða, strjálbýlli héraða í landinu, til að fylgja með í þróun fjarskiptanna? Ég segi nei. Í skýin eru skrifaðar einhverjar óljósar hugmyndir manna um að stoppa í götin mögulega með einhverjum þeirra tekna sem menn hafi af sölu Símans svona til að þetta líti betur út í byrjun. Hvað um framhaldið? Hvað eftir fimm ár? Hvað eftir 10 ár? Hver á þá að tryggja að afskekktari héruð geti áfram verið fullgildir þátttakendur í upplýsingasamfélaginu á samkeppnisfærum forsendum? Einkaaðilar? Markaðurinn? Hvernig ætla menn að gera þær kröfur til hans þegar fyrsta boðorðið er arður til eigendanna? Það fer ekki saman og það vita allir.

Það stangast því miður, frú forseti, mjög margt hvað á annars horn í þessum byggðaáherslum hæstv. ríkisstjórnar. Áformin eru falleg og vissulega eru ljós í myrkrinu eins og uppbygging Háskólans á Akureyri sem menn grípa jafnan til þegar allt um þrýtur og benda á. Er allt rétt um það. Það var eitt það gæfulegasta sem menn hafa lengi gert í byggðamálum ef við viljum flokka það sem slíkt frekar en menntunarmál eða menningarmál. (Gripið fram í.)

Það dugar skammt að benda á eitt slíkt dæmi. Skárra væri það þótt eitthvað jákvætt hafi verið að gerast. Reyndar finnst mér uppbyggingin þar sem á að mynda höfuðmótvægið í byggðamálum hökta í hægagangi, að það skuli t.d. taka 10 ár að koma í gagnið nýbyggingu Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Hvers konar afköst eru það? Það er ekki mikið til þess að hrósa sér af.