131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[14:25]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að veita andsvar núna, ef einhvern tímann hefur verið.

Hv. þm. sagði í upphafi ræðu sinnar að hann ætlaði að taka að sér að vera leiðinlegur. Honum fórst það alveg sérstaklega vel úr hendi. (SJS: Þakka þér fyrir.) Það er ekki hægt að hugsa sér annað eins svartagallsraus í einum þingmanni eins og það sem fram kom hjá hv. þingmanni. Ég veit ekki hvaða fólk hv. þingmaður hittir þegar hann er á ferð um landið. Hann hittir ekki sama fólkið og ég, svo mikið er víst. Ég reyni líka að forðast vinstri græna þegar ég er á ferðinni. (Gripið fram í.) Já. Hann gat ekki hrakið eitt orð úr ræðu minni þar sem hann sagði að ég hefði verið með einhverjar skýjaborgir og allt of mikið af fallegum orðum. Ekki eitt orð gat hann hrakið. Datt niður í það einu sinni að vera jákvæður þegar hann fór að tala um Háskólann á Akureyri. Það er fullt af jákvæðum hlutum að gerast á landsbyggðinni og það veit hv. þm. Hann bara kýs að tala á annan veg. Hann er ekki svo skyni skroppinn.

Hvað er svo sem verið að gera í nýsköpunarmálum? Til hefur orðið nýr sjóður sem heitir Tækniþróunarsjóður. Hann er með 200 millj. í ár og verður með 340 millj. á næsta ári til að taka á þeim þætti mála og hann er á vegum ráðuneytis míns og skiptir sköpum. Nýsköpunarsjóður hefur vissulega verið of veikur. Við breyttum lögunum sl. vor til að styrkja hann og það verður gert.

Hv. þm. talar um Símann, að það sé ekki líklegt til að bæta þjónustuna við landsbyggðina ef hann verði seldur. Hvað gerðist með bankana? Hvað stóð ég oft í þessum stól að rífast við vinstri græna á síðasta vetri og vetrinum þar á undan um sölu bankanna? En þeir töldu að ekki mætti selja bankana því það yrði svo óhagstætt fyrir landsbyggðina og landsmenn alla. Það var gert, og hvað eru bankarnir að gera? Hvað hefði orðið um þennan yndislega ríkisbanka sem hv. þm. Vinstri grænna vildu að yrði til í landinu áfram þótt annar yrði seldur? Ætli hann hefði ekki staðið sig vel í samkeppninni núna við bankana sem eru að bjóða landsmönnum öllum miklu betri kjör?

Svona mætti halda áfram. Hv. þingmaður talar um að samgöngur séu ekki í nægilega góðu lagi. Hvað er að gerast á því landsvæði sem við þekkjum best til, þegar Tjörnesið verður opnað á morgun? Bundið slitlag frá Reykjavík og nánast til Kópaskers. Svo er verið að vinna að jarðgöngum á tveimur stöðum á Austurlandi og þannig mætti áfram telja.

Þannig að ég held að hv. þingmaður ... (Forseti hringir.) og svo kemur hann með kolrangar tölur um byggðaþróun á Austurlandi í ofanálag.