131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[14:52]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vandinn við fiskveiðistjórnarkerfið er fyrst og fremst að menn þurfa að kaupa veiðiréttinn af öðrum sem fyrir eru í greininni. Væri sá veiðiréttur til boða fyrir alla á jafnræðisgrundvelli þá gætu menn stofnað fyrirtæki í sjávarútvegi og keppt við hina sem fyrir eru.

Varðandi það að mér hafi sárnað að vinstri mönnum skyldi kennt um það ástand sem var hér þegar Davíð Oddsson komst til valda þá er það nú ekki alls kostar rétt. Mér fannst það hins vegar svolítið undarlegt að skrifa það allt á kostnað ríkisstjórnar sem sat í skamman tíma á undan. Ef ég man rétt var ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar á undan þeirri ríkisstjórn sem hv. þm. kennir um allt sem miður hefur farið og þar á undan var Steingrímur Hermannsson við völd ásamt Sjálfstæðisflokknum. Þar á undan var Gunnar Thoroddsen við völd ásamt vinstri flokkunum. Ég veit ekki betur en hann hafi verið sjálfstæðismaður ásamt fleirum í þeirri ríkisstjórn. Svona má telja aftur á bak. Ég komst að þeirri niðurstöðu að ef farið væri aftur til ársins 1974 þá hafi Sjálfstæðisflokkurinn verið við völd í um 22 ár af þessum 26.

Ég held að þróunin geti ekki skrifast sérstaklega á vinstri flokkana í þessu landi á þeim tíma. Við getum auðvitað rætt það fram og til baka. Sú ríkisstjórn skilaði þó af sér þeirri stöðu gagnvart verkalýðshreyfingunni sem varð til að koma á stöðugleika. Á því byggðu þær ríkisstjórnir sem á eftir komu. Ég tel að það hafi verið afar mikilvæg niðurstaða en því miður stefnir í að sá stöðugleiki gæti raskast núna. Það væri afar óheppilegt ef svo vildi til.