131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[15:24]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Formaður iðnaðarnefndar talaði hér áðan. Greinilegt er að skipt hefur verið um forrit í formanni iðnaðarnefndar frá þeim formanni sem var í nefndinni í fyrra. Svona ræðu hefði maður aldrei heyrt frá honum. Hann nefnilega gerir sér grein fyrir áhrifum af eignarhaldinu í sjávarútveginum. Framsóknarflokkurinn er einmitt klofinn, a.m.k. stuðningsmenn hans, í tvær fylkingar hvað varðar afstöðuna til þess hvort þetta eigi að vera svona.

Það er annars merkilegt að menn skuli ekki geta annað en hlaupið í vörn fyrir einstök fyrirtæki þegar verið er að ræða um sjávarútvegsmál. Það er náttúrlega ekki tími til að tala um þau mál núna. Við höfum ekki lagt það til að kvóta væri úthlutað eitthvert, eins og hv. þm. sagði. Við höfum lagt til að komið væri á kerfi þar sem allir sem vildu vinna í sjávarútvegi sætu við sama borð til að sækja eftir þeim kvóta á leigumarkaði. Jafnræði væri og það kæmist á ástand sem hægt væri að líkja við ástand í öðrum atvinnugreinum.

Það er eins og í hv. þingmönnum og ríkisstjórninni í heild og stuðningsmönnunum hennar sé skipt um forrit þegar talað er um landbúnaðarmál annars vegar og sjávarútvegsmál hins vegar. Þá eiga að gilda allt aðrar forsendur en í öllum öðrum atvinnugreinum í landinu. Þá skal ekki jafnræði gilda.

Ég minni hv. þingmann á að iðnaðarnefnd fer með byggðamál. Hvað er það sem hrjáir byggðir landsins, fyrst og fremst sjávarútvegsbyggðirnar? Það er það ástand að ekki skuli vera jafnræði til að nýta auðlindina, að það skuli vera búið að kippa fótunum undan því fólki sem byggði upp á ströndinni, eins og hefur verið gert með þessu kerfi.