131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[16:43]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta svolítið undarlegt svar. Þó að allt sé gott um það að segja sem hæstv. ráðherra taldi upp þá vantar gríðarlegar framkvæmdir á suðurfjörðum Vestfjarða og tengingar á Vestfjörðum, og reyndar fleira sem ég hef ekki tíma til að fara yfir hér, til að hægt sé að segja að viðunandi samband sé komið á.

Við sjáum að gríðarlegir fjármunir munu fara í jarðgöng og aðrar slíkar framkvæmdir annars staðar á landinu núna á næstunni og þegar niðurskurðurinn í vegamálum sem liggur fyrir er tekinn með inn í þetta dæmi get ég ekki séð annað en að skoða þurfi þessi mál upp á nýtt. Mér finnst full ástæða til að það verði skoðað að fara í átak í vegamálum einmitt sem byggðaaðgerð á því svæði þar sem hallar á. Mér finnst hæstv. ráðherra vera of ánægður með það sem hann er að gera ef hann telur að hann sé í miðju átakinu vegna þess að það þarf að taka ákvarðanir um að gera miklu betur.