131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Veggjald í Hvalfjarðargöng.

75. mál
[18:28]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki þrasa við hv. þm. Jóhann Ársælsson út af þessu máli. Athugasemdir mínar voru færðar fram af góðum hug og velvilja og ég lýsti einmitt skilningi á sjónarmiðunum sem að baki tillögunni liggja. Mér finnst þarft að þetta sé skoðað en ég mælti ákveðin varðnaðarorð og hafði fyrirvara í ljósi þess hvernig þetta mál er í pottinn búið og ég vísa til þess.

Ég ætlaði reyndar að koma að, en hafði ekki tíma til þess, þörfinni fyrir að skoða þessi mál heildstætt og móta þá eftir atvikum einhverja stefnu sem gæti tekið til þess ef ráðist verður í fleiri slíkar framkvæmdir, ég tala nú ekki um á sama samgöngusvæði. Það er augljóst mál að það gengi illa upp að hlaða slíkri gjaldtöku hverri ofan á aðra ef t.d. Sundabrautin tæki við af Hvalfjarðargöngum og menn ættu að borga á tveimur stöðum. Ég held að það yrði að leysa þau mál með einhverjum öðrum hætti, t.d. með því að samræma gjaldtökuna og stilla henni í hóf og hún væri í takt við þann ávinning sem er af viðkomandi framkvæmd.

Menn mega ekki gleyma því að hugsunin er sú að með þeirri aðferð nái menn fram samgöngubótum sem skila mönnum mjög miklum ávinningi og menn njóta hans þá umfram það sem ella væri. Ef um valkvæðan kost er að ræða standa ýmis sanngirnisrök áfram fyrir því að menn greiði að einhverju leyti fyrir hagræðið sem menn hafa af því að nýta sér viðkomandi framkvæmd.

Ég held reyndar að mjög brýnt sé að taka þessi mál til skoðunar hér á suðvesturhorninu, út af þeim dýru og miklu framkvæmdum allt í kringum og í höfuðborginni, stórborginni við botn Faxaflóans. Það kynni vel að koma út úr slíkri skoðun einhvers konar norskt fyrirkomulag, Óslóarsvæðisfyrirkomulag, þannig að þetta væri meira samræmd gjaldtaka sem gengi úr einum sjóði til mismunandi úrbóta á svæðinu. Þannig er þetta t.d. á Óslóarsvæðinu og ekki eyrnamerkt einstökum gatnamótum eða einstökum jarðgöngum þar, heldur er ákveðið svæði innan tiltekins gjaldhrings. Ein leiðin væri einn gjaldtökusjóður af þessu tagi fyrir landið í heild (Forseti hringir.) sem stæði undir slíkum sérverkefnum.