131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Umsvif varnarliðsins.

[13:41]

Böðvar Jónsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að bjóða hæstv. utanríkisráðherra velkominn til starfa og lýsa sérstakri ánægju minni með að sjá hann hér á ný.

Eins og öllum er kunnugt hafa orðið miklar breytingar á störfum og veru varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli á síðustu mánuðum. Í síðustu viku bárust fréttir af því, m.a. úr blöðum varnarliðsins sjálfs, að verið væri að flytja mikið af hergögnum úr landi og að fyrirhugaður væri mikill niðurskurður á veru varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.

Þar sem hæstv. utanríkisráðherra er kominn til starfa langar mig að óska eftir því að hann svari hvort eitthvað sé að frétta af þessu máli, hvort honum sé það kunnugt, hvort þær fréttir sem bárust í síðustu viku um flutning hergagna séu réttar og hvort eitthvað sé að frétta af viðræðum íslenskra stjórnvalda og Bandaríkjamanna um veru varnarliðsins.