131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Breytingar á stjórnarskrá.

9. mál
[14:29]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að umræðan sem hér fer fram sé þörf því endurskoðun stjórnarskrárinnar er löngu orðin tímabær og allir stjórnmálaflokkar sem eiga fulltrúa á Alþingi hafa verið sammála um það nokkuð lengi.

Margir hafa tjáð sig í ræðu og riti um nauðsyn þess en í þingmáli Samfylkingarinnar kemur fram afstaða okkar til helstu breytinga sem við teljum að þurfi að gera. Í greinargerðinni kemur líka fram hversu áríðandi við teljum að almenningur í landinu taki þátt í því gríðarlega mikilvæga starfi. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson kvað fast að orði um þessa hluti áðan en ég vil aðeins fara nánar yfir þetta.

Í umræðum um stjórnarskrána og lýðræðismálin kemur alltaf fram að flestir sjá sömu vandamál við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Fólkinu í landinu, kjósendunum, finnst það ekki vera hlutverk þeirra sem fara með völdin að setja sjálfum sér reglur til að fara eftir. Og það skyldi engan undra í ljósi reynslu síðustu ára af því hvernig menn fara með völd sín.

Margir hafa sett fram hugmyndir um sérstakt stjórnlagaþing en ekki liggur í augum uppi hvernig eigi að velja fólk til að sitja á slíku þingi. Um það hefur engin góð tillaga komið fram. Það er skoðun mín að sjálfsprottið stjórnlagaþing þar sem kjósendur en ekki stjórnmálamenn ræði sjálfan grundvöll stjórnskipunarinnar, þ.e. stjórnarskrána, geti vel heppnast. Mér finnst rökin fyrir þessu vera að þá sé valdið komið frá fólkinu í landinu. Með almennum kosningum færir fólkið völdin til fulltrúa á Alþingi. Þessir fulltrúar geta á hverjum tíma eins og nú farið að nota valdaaðstöðu sína ótæpilega, jafnvel farið að setja reglur um óeðlileg völd sér til handa, taka pólitísk réttindi frá þjóðinni eða setja lög sem örugglega stríða gegn þjóðarvilja. Um þetta eru sannarlega dæmi.

Einstaklingar hafa talað til Alþingis í fjölmiðlum og bent á það sem betur má fara en reynslan sýnir að á þá er takmarkað hlustað af ráðamönnum. Sagt er að valdið spilli öllum sem lengi hafa með það farið og á slíkt við um Alþingi eins og aðrar valdastofnanir. Þar á ég ekki bara við stjórnarliða á Alþingi. Alþingi er og á að vera æðsta valdastofnun landsins. Það hlutverk hefur Alþingi sem heild, þ.e. bæði stjórn og stjórnarandstaða á hverjum tíma. Og því þarf stjórnarandstaða á hverjum tíma líka að líta í eigin barm. Verðum við óhlutdrægir fyrir hönd Alþingis gagnvart þjóðinni við það verkefni að endurskoða stjórnarskrána af því að við erum í stjórnarandstöðu? Ég segi nei. Við verðum það ekki. Auðvitað viljum við til valda. Ef stutt væri síðan við hefðum haft völdin væri líklegt að við stæðum nær stjórnvöldum en almenningi í afstöðu okkar til þess að takmarka völd Alþingis eða framkvæmdarvaldsins.

Traust almennings á alþingismönnum er ekki mikið og síst er hægt að treysta því að við getum sett okkur eigin leikreglur hjálparlaust. Augljóslega þurfa stjórnvöld jafnt sem stjórnarandstaða á leiðbeiningum að halda. Við endurskoðun stjórnarskrárinnar þarf að styðjast við ríkan þjóðarvilja. Slíkan þjóðarvilja er ekki hægt að mæla í kosningum til Alþingis þó að breytingar á stjórnarskrá séu líka í húfi í slíkum kosningum. Alþingi þarf þess vegna vel og grandgæfilega ræddar leiðbeiningar um breytingar á stjórnarskránni frá valdgjafanum, þ.e. fólkinu í landinu. Ef trúverðuglega væri unnið að málinu bæri Alþingi að taka slíkar leiðbeiningar mjög alvarlega. Og hvað er eðlilegra en að þjóðin, þegar henni finnst tími til kominn, setjist á rökstóla og tali til Alþingis, ríði fjölmenn til Þingvalla á nútímavísu? Ég held að það sé orðið tímabært. Þetta getur þjóðin gert undir forustu fólks sem stendur utan við stjórnmálaflokkana. Meðlimir stjórnmálaflokka geta vel tekið þátt í starfi af því tagi sem svona sjálfsprottið stjórnlagaþing vinnur en forustan má auðvitað ekki verða bitbein flokkapólitíkur.

Í þessu landi er fjölmargt áhugafólk um betra lýðræði. Og hvað er áhugaverðara fyrir fólk sem hefur áhuga á þjóðfélaginu og leikreglum þess en að taka þátt í virkri umræðu um sjálfar grunnreglurnar? Eins máls hreyfingar eru þekkt fyrirbæri. Nú er réttur tími til stefnu fyrir starf sem gæti orðið afar mikilvægt við endurskoðun stjórnarskrárinnar sem vonandi lýkur fyrir næstu kosningar til Alþingis. Spurningin er einungis hverjir hafa eldinn til að vekja lýðræðismeðvitundina með þjóðinni og virkja hana með þeim krafti að Alþingi taki mark á boðskapnum. Ég hvet til þess að láta okkur stjórnmálamönnum ekki einum eftir að fjalla um þessi mikilvægustu lýðræðismál mál okkar tíma. Mér finnst þessir hlutir vera þannig að vandi okkar þingmanna sé gríðarlegur. Við höfum auðvitað farið yfir þau málefni sem okkur finnst að eigi að breyta en mér finnst við ekki í raun og veru hafa umboð til þess að ákveða fyrir hönd þjóðarinnar hvaða reglur hæfi best. Þess vegna þarf að finna leiðir til að virkja umræðu í þjóðfélaginu.

Ég hef ekki á annað að benda en það sem ég var að setja fram, þ.e. að þegar almenningi finnst tími til kominn að breyta reglunum þá fari fram virk og almenn umræða í þjóðfélaginu, með þátttöku þeirra sem þekkja vel til, og síðan verði til einhvers konar alþingi almennings í landinu. Alþingi hlýtur þá að taka tillit til hugmynda sem þar koma fram. Ég læt mér ekki detta í hug að stjórnarskrá verði til einhvern sunnudaginn á Þingvöllum þar sem punktur verði settur aftan við það sem menn settu þar á blöð heldur að grundvallaratriði í endurskoðun stjórnarskrárinnar komi a.m.k. frá almenningi í landinu þannig að alþingismenn, sem eiga að bera ábyrgð á að úr þessum umræðum verði niðurstaða, hafi eitthvað til að byggja á. Mér finnst að þetta sé hægt en til þess að svo verði þurfa einhverjir í samfélaginu að finna hjá sér hvöt til að fara í slíka vinnu.