131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Breytingar á stjórnarskrá.

9. mál
[15:19]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Frú forseti. Í þessari tillögu þingmanna Samfylkingarinnar er hreyft ýmsum atriðum er lúta að grundvallargildum í samfélagsgerð okkar. Í níu atriðum eru tiltekin ýmis atriði sem sérstaklega þarf að huga að hvað varðar breytingar og endurskoðun á stjórnarskrá og er upptalningin langt í frá altæk.

Ég hafði, frú forseti, gert mér vonir um það í því ljósi að á síðustu vikum og mánuðum hefur umræðan um stjórnarskrána, veikleika hennar og styrkleika eftir efnum og ástæðum, verið mjög ofarlega á baugi í hinni almennu umræðu í þessu húsi og í þjóðfélaginu öllu, þá hafði ég gert mér í hugarlund að þingmenn væru tilbúnir í eldhúsdag um þau atriði. Því miður er því ekki að heilsa því að mér sýnist á mælendaskránni að það séu einkum og sér í lagi þingmenn Samfylkingarinnar, þ.e. flutningsmenn sjálfir, og aukinheldur að ógleymdum síðasta ræðumanni, hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni, og hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni sem hafa lagt hér orð í belg. Með öðrum orðum að þegar til stykkisins kemur virðist áhugi a.m.k. stjórnarliða á stjórnarskránni, sem þeir stundum tala hátt og mikið um, ekki vera meiri en þessi.

Ég hirði svo sem ekkert um það og læt mér það í léttu rúmi liggja en vil þó kalla mjög ákveðið eftir því úr þessum ræðustól að þau yfirlýstu markmið stjórnarliða og oddvita stjórnarflokkanna um að setja á enn eina stjórnarskrárnefndina verði að veruleika fyrr en síðar en ekki bara spjall út í himingeiminn. Því staðreyndin er sú að þó að stjórnarskrá verði aldrei þannig úr garði gerð að hún svari öllum þeim álitaefnum sem upp koma í samfélaginu við lagasetningu eða við túlkun laga þá er það auðvitað eftirtektarvert að í síauknum mæli, m.a. í þessum sal og úr þessum ræðustól, hafa þingmenn, þeir sem setja lögin, borið brigður á það að tiltekin lagasetning standist ákvæði stjórnarskrár.

Ég ætla ekki að leggja dóm á það í hve mörgum tilfellum slík gagnrýni á rétt á sér og hvenær ekki en ég skynja það á mínum beinum að þetta fer mjög vaxandi. En það sem er verra er að við sem setjum landinu lög og erum kjörin sérstaklega til þess erum sum hver a.m.k. farin að tala á þann veg að það sé eðlilegt og sjálfsagt að dómstólar landsins, Hæstiréttur, kveði upp úr um það og séu raunverulega sá aðili einn og sér sem kveða eigi upp úr um hvort þessi eða hin lagafrumvörpin séu í samræmi við stjórnarskrá. Þannig á það auðvitað ekki að vera. Ef það er svo að trekk í trekk og aftur og aftur koma upp álitamál um að tiltekin atriði í stjórnarskrá séu óljós og óskýr, þá eigum við auðvitað og okkur ber að taka á þeim atriðum og reyna að skilgreina þau með þeim hætti að landi og lýð sé ljóst hvað átt er við. Þarna þarf auðvitað að fara varlega og ég er ekki að kalla eftir því að menn hlaupi hér upp til handa og fóta í hvert einasta skipti og leggist í stjórnarskrárpælingar og breytingar á henni. Þetta á auðvitað að vera grundvallarplagg sem á að lifa lengur en dægur, mánuð, missiri eða ár, þetta á að vera gagn sem við getum byggt á og land og lýður getur trúað og treyst á.

Upptalningin í fyrirliggjandi tillögu, frú forseti, er þess eðlis að flest atriðin hafa verið mjög vakandi og ofarlega á baugi í almennri þjóðfélagsumræðu og það er því löngu kominn tími til að menn komist að niðurstöðu á einn eða annan veg í þeim efnum. Að landið og miðin séu þjóðareign er yfirlýst stefna allra flokka, liggur mér við að segja, a.m.k. í seinni tíð.

Ég held að það blandist líka engum hugur um mikilvægi þess að koma til móts við þann vilja almennings í landinu að þjóðaratkvæðagreiðslur verði snar þáttur við ákvörðun mikilvægra málefna. Við höfum aldrei nýtt okkur það ákvæði og það er dauður bókstafur.

Ég nefni líka eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu sem hægt væri að setja hér á langar ræður um og hafa verið settar á langar ræður og flutt fjölmörg frumvörp um ár eftir ár. Raunar er ýmis þau ákvæði einnig að finna í þingsköpum Alþingis sem löngu er brýnt að við förum yfir og endurskoðum frá grunni og raunar liggja fyrir tillögur í þá veru, m.a. frá þeim sem hér stendur.

Ég nefni líka það sem fyrri ræðumenn hafa nefnt, að skoða Ísland í samfélagi þjóðanna í þessu samhengi. Við getum auðvitað ekki búið við að það séu enn þá uppi álitamál, tíu árum síðar, að Alþingi Íslendinga hafi hugsanlega, og margir halda sennilega, gert rangt þegar ákvörðun var tekin um að ganga inn í hið Evrópska efnahagssvæði. Ég held að við þurfum að horfast í augu við þann veruleika og þær breytingar og öru þróun sem átt hefur sér stað einkum á síðustu árum hvað varðar Ísland í samfélagi þjóðanna og alþjóðasamninga í því samhengi, og læt ég þá algjörlega liggja á milli hluta hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu þó að við þurfum auðvitað að hafa það bak við eyrað.

Þetta eru allt mál sem brenna á okkur og við þurfum að takast á við og skapa hinn pólitíska vilja og hið pólitíska þrek til að gera það. Það stendur ekki á flutningsmönnum í því sambandi. Ég vek athygli á orðræðu formanns flokksins, Össurar Skarphéðinssonar, í inngangsræðu hans með þessari tillögu til þingsályktunar þar sem hann kvað upp úr með að hér væri ekki hinn stóri sannleikur á ferð, það væri ekki endilega þannig að allir flutningsmenn væru nákvæmlega sammála um öll einstök atriði upp á punkt og prik í þeim álitamálum sem hér eru vakin upp. Ég nefni til að mynda efasemdir mínar um að það eigi að gera róttækar breytingar á samskiptum ríkis og kirkju. Ég vil nefna það sérstaklega hér til sögu, en ég er að sönnu algjörlega tilbúinn til að fara í gegnum þá umræðu og ræða hana til hlítar.

Ég vil hins vegar að lyktum leggja sérstaka áherslu á atriði sem hér er að finna og ég hef raunar ásamt félögum mínum tvívegis flutt frumvarp um og vil láta koma fram við þessa umræðu að ég hef í hyggju að flytja aftur frumvarp um á næstu dögum og það varðar „Landið eitt kjördæmi“. Ég hef átt þess kost að sitja í tveimur stjórnarskrárnefndum, annars vegar 1995 og hins vegar 1998 og 1999 þar sem gerð var síðasta stóra breytingin á kjördæmaskipan í landinu. Hún var að sönnu mjög umdeild og voru alls ekki allir á eitt sáttir um hana en mat flokkanna þá og flestra þingmanna var samt sem áður að betra væri að taka eitt skref þótt lítið væri heldur en að sitja uppi með ónýtt fyrirkomulag eins og hið gamla var. Ég held hins vegar að þetta hafi eingöngu verið áfangaskref og í ljós hafi komið þegar kjördæmin stækkuðu, bæði landfræðilega og þingmönnum fjölgaði, að þá hafi menn séð fram á að það er vel gerlegt að vinna við þær kringumstæður og eingöngu spurning um tíma en ekki hvort við tökum hið stóra skref að endingu og gerum landið allt að einu kjördæmi.

Ég heyri það úr öllum flokkum, ekkert síður úr stjórnarflokkunum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, að fylgi við þá hugmynd er stórvaxandi og sérstaklega vek ég athygli á því af því að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir gengur nú inn í salinn, fráfarandi umhverfisráðherra, sem hefur talað mjög fyrir þessum sjónarmiðum og raunar miklu, miklu fleiri. (Forseti hringir.) Tími minn er búinn. Frú forseti. Það er eingöngu tímaspursmál að minni hyggju hvenær landið verður eitt kjördæmi.