131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Breytingar á stjórnarskrá.

9. mál
[15:28]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Sú tillaga til þingsályktunar sem hér er til umræðu, um breytingar á stjórnarskrá, er flutt af þingmönnum Samfylkingarinnar. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hélt hér góða ræðu og væri ágætt ef hv. þingmaður hefði tök á að fylgjast með ræðu minni líka.

Frú forseti. Þau atriði sem talin eru upp í tillögunni er að mínu viti eðlilegt að séu rædd og skoðuð. Þingsályktunartillagan felur í sér að skipuð verði nefnd allra þingflokka til að endurskoða stjórnarskrána og ég styð það sjónarmið að allir þingflokkar eigi aðild að slíkri endurskoðun.

Varðandi atriðin sem síðan eru talin upp eins og t.d. a-liðinn: „að gera tillögur um hvernig tryggja má í stjórnarskrá sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum, svo sem lifandi auðlindum í hafi eða öðrum sem kunna að finnast á eða í hafsbotni, auðlindum í fallvötnum, auðlindum í fjarskiptarásum í lofti, þjóðlendum, svo og öðrum náttúruauðlindum sem enginn á og álíta má sameiginlega arfleifð þjóðarinnar“ þá tel mjög eðlilegt að réttarstaða á þessari sameign þjóðarinnar sé tryggð og ef ástæða er til þess að breyta stjórnarskrá þar um þá sé nauðsynlegt að það verði gert. Við upplifðum umræðuna um fiskveiðistefnuna þar sem fiskveiðiheimildirnar voru teknar af byggðunum og eru komnar í hendur örfárra manna þannig að byggðirnar vítt og breitt um landið, byggðir sem urðu til á grundvelli þess að nýta auðlindirnar meðfram ströndum landsins, standa nú uppi án þess að hafa þar lengur aðgang að og slíkt er náttúrlega bara fullkomið óréttlæti. Það þarf því ekki aðeins að tryggja sameign þjóðarinnar, heldur líka að tryggja rétt íbúanna á viðkomandi svæðum til þess að hafa forgangsrétt til auðlinda sinna. Það höfum við þingmenn Vinstri grænna einmitt lagt til í okkar sjávarútvegsstefnu, að hluti af fiskveiðiheimildunum sé bundinn við byggðirnar.

Þá vil ég og víkja að þeirri umræðu sem nú á sér stað og því sem er að gerast í uppkaupum á jörðum vítt um land. Fyrr á öldum voru jarðeignir á landinu annaðhvort í eigu örfárra stóreignamanna, kóngsins eða biskupsstólanna. Hluti þeirrar sjálfstæðisbaráttu sem hófst um 1800 og lyktaði með endanlegu fullu sjálfstæði var einmitt að fela landið í forsjá ábúendanna, sjálfseignarbænda. Það var litið á það sem hluta af sjálfstæðisbaráttunni að vera með mjög dreifða eignaraðild þannig að segja mætti að þjóðin ætti landið. Nú er land aftur að færast á örfárra manna hendur, bæði landið og náttúruauðlindir sem því tilheyra. Ég tel þetta mjög varhugaverða þróun, ekki aðeins gagnvart landeigninni sem slíkri heldur einnig gagnvart því hvernig við nytjum land, bæði til lengri og skemmri tíma. Þessi þróun ógnar líka þeim sáttmála sem hefur verið um framleiðslu á búvörum og nýtingu landsins gæða á sjálfbæran hátt fyrir þjóðina alla.

Ég tel tímabært að skoða hvort ekki eigi einmitt að festa í stjórnarskrána að land skuli vera að grunni til í eigu þjóðarinnar, ekki bara þjóðlendur heldur land allt. Ég teldi mjög hættulegt ef t.d. uppkaup á jörðum sem nú eiga sér stað leiddu síðan áfram til þess að þær söfnuðust á örfárra manna hendur, þá jafnframt útlendinga og/eða til stórfyrirtækja.

Þarna eru mörg brýn atriði sem ég tel að ætti að taka inn í þessa umræðu. Ég er sammála flutningsmönnum um nauðsyn þess að taka á því. Þjóðin á að eiga óskoraða sameiginlega eign og forsjá á auðlindum sínum.

Einnig vil ég árétta þjóðaratkvæðagreiðsluna, að ákveðinn hluti landsmanna og ákveðinn hluti þingmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um mál. Jafnframt er mjög mikilvægt að þjóðaratkvæðagreiðslur fari fram á sjálfstæðan hátt og séu ekki gerðar að hluta af alþingiskosningum eins og nú er. Það er veruleg skerðing á lýðræðinu að láta alþingiskosningar einar ráða stjórnarskrárbreytingum, þetta á að vera sjálfstæð ákvörðun hverju sinni af hálfu þjóðarinnar hvernig atkvæði eru greidd um breytingar á stjórnarskránni. Þetta tel ég kannski einna brýnast að taka á varðandi lýðræðið, aðkomu þjóðarinnar að stjórnarskránni og breytingum hennar.

Ég get hins vegar ekki tekið undir og er ekki sannfærður um mikilvægi þess að gera landið að einu kjördæmi. Ef út í það yrði farið yrði samtímis að tryggja lýðræði gagnvart hinu pólitíska starfi í landinu, tryggja opinn aðgang að framboðum. Ég óttast að ef keyrt yrði eins og við núverandi lagaumgjörð inn í eitt kjördæmi mundi það auka verulega á flokksræðið í landsstjórnmálunum. Þetta má svo sem allt skoða.

Ég tel að sú kjördæmabreyting sem var gerð síðast hafi verið mjög vanhugsuð. Við höfum byggt á því að kjördæmin mynduðu eins konar starfseiningar eða félagslegar einingar en kjördæmabreytingin sem var gerð síðast tók ekkert mið af því að mínu mati. Það að skipta Reykjavík upp í tvö kjördæmi er dæmi um vitleysuna og líka það að mynda eitt stórt Norðvesturkjördæmi eins og við höfum nú sem er fjarri því að vera samgönguleg eða félagsleg eining.

Ég tel að kjördæmabreytingin síðasta hafi frekar orðið til þess að veikja lýðræðislegan rétt almennings í landinu og möguleika á nánu samstarfi og tengslum milli þings og þjóðar, á milli þingmanna og kjósenda þeirra. Ekkert af þessu er þó óbreytanlegt og er sjálfsagt að þetta sé allt saman endurskoðað reglulega ef ástæða er til.

Frú forseti. Ég kom hingað fyrst og fremst til að lýsa almennum stuðningi við þau sjónarmið að sett verði í gang nefnd allra þingflokka sem fari í gegnum þau atriði sem þarna eru nefnd og fleiri. Þó er ég ekki þar með að lýsa stuðningi við ýmislegt í greinargerðinni eða aðra þætti sem þar eru tíundaðir.