131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Breytingar á stjórnarskrá.

9. mál
[15:36]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil við lok þessarar umræðu þakka öllum hv. þm. sem hér hafa tekið til máls og með ýmiss konar hætti lýst stuðningi við tillöguna eða a.m.k. mörg meginatriði hennar. Ég vil sérstaklega þakka þeim hv. þm. Jóni Bjarnasyni, Guðjóni A. Kristjánssyni og Kristni H. Gunnarssyni sem ekki eru í Samfylkingunni fyrir þau sjónarmið sem þeir lögðu hérna fram. Sömuleiðis óska ég hv. þm. Kristrúnu Heimisdóttur til hamingju með ákaflega fína jómfrúrræðu sem varpaði gleggra ljósi á eitt tiltekið atriði þessarar tillögu en okkur öðrum hafði auðnast sem um það höfðum fjallað.

Ég held að það merkilegasta sem hér hefur komið fram í umræðunni sé að það virðist almennur vilji til þess að þau atriði sem eru lögð fram í tillögu Samfylkingarinnar verði hluti af lýðræðislegri umræðu um endurbætur á stjórnarskránni. Spurningin er síðan: Með hvaða hætti er best að haga þeirri umræðu? Ég verð að viðurkenna að ég er dálítið skotinn í hugmyndinni sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir lagði hér fram um þjóðfund. Ég er þeirrar skoðunar að því meiri samstaða sem næst um að koma þessari umræðu á sem breiðastan grundvöll, því betra.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson undirstrikaði þá skoðun sína að hann teldi að hvernig sem þessari siglingu yrði háttað ætti það að verða svo í framtíðinni að um hverja einstaka breytingu sem lögð væri til á stjórnarskránni þyrfti þjóðin sérstaklega að greiða atkvæði. Ég er sammála því. Mér finnst að það væri mjög til bóta að fara þá leið.

Hv. þm. Jón Bjarnason ræddi þann möguleika að auðlindin „land“ yrði líka tekin upp í ákvæðið sem við leggjum til um sameign á auðlindum í þjóðareigu. Þetta er ákaflega athyglisvert. Í tillögunni er lagt til að þjóðlendur verði lýstar þjóðareign en það er mjög erfitt hygg ég lagalega að lýsa lönd þjóðareign. Miklar deilur hafa verið í landinu um það hver eigi tiltekið landsvæði eins og hv. þm. vita. Ég held að þetta þyrfti að skoða ákaflega vel áður en það yrði upp tekið. Hins vegar er þetta hugmynd sem sjálfsagt er að ræða í þessu ferli öllu saman.

Ég fagna því sérstaklega að heyra þann hljómgrunn sem tillaga okkar um sameignarákvæðið virðist eiga. Ég reifaði það í flutningsræðu minni að a.m.k. Framsóknarflokkurinn hefur tekið á því máli með flokkslegum hætti og samþykkt stuðning við það viðhorf. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson vandaði föðurlega um við mig sem 1. flutningsmann þingsályktunartillögunnar þegar hann sagði að hann gæti ekki verið sammála mér og þeim sem tillöguna flytja, sagði að ríkisstjórnin hefði þó stigið ágæt skref varðandi þetta tiltekna ákvæði. Ég er eigi að síður þeirrar skoðunar að það brjóti í blað þegar ein ríkisstjórn lýsir því yfir í sameiginlegri starfslýsingu tveggja flokka að stefna beri að því að taka slíkt ákvæði upp í stjórnarskrá. Að sönnu var það með þeim hætti orðað að einungis átti við auðlindir í hafi. Það er samt sem áður mikilvægt. Ef hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson vill getur hann notað þetta sem svipuól til þess að reka ríkisstjórnina áfram í því efni. Hún hefur gefið fullt tilefni til þess.

Ég tel að eins og umræðunni um stjórnarskrána hefur undið fram á síðustu missirum hafi orðið ein meginbreyting. Eftir að við samfylkingarfólk byrjuðum fyrst að reifa hér þjóðaratkvæði hefur það gerst að orðin er breið samstaða um það í samfélaginu að ákvæði um þjóðaratkvæði verði tekið upp. Ýmsir af helstu fjölmiðlum landsins hafa ítrekað skrifað til stuðnings því viðhorfi. Flokkar af ólíkum toga hafa lýst stuðningi við það og ýmiss konar fjöldasamtök eins og hlutar af verkalýðshreyfingunni hafa gert það líka. Þeir sem áður höfðu það á tilfinningunni að þeir væru eins og Jóhannes skírari í árdaga, rödd hrópandans í eyðimörkinni, eru með allt öðrum hætti að upplifa sinn eigin málflutning. Við finnum að hann á sér skýra samsvörun meðal þjóðarinnar.

Ég er þeirrar skoðunar að hin mikla umræða um málskotsrétt forsetans og þær deilur sem stóðu um fjölmiðlalögin illræmdu sem hér voru samþykkt á vordögum og jafnharðan úr gildi numin þegar leið á sumarið hafi svipt hulu frá sjónum manna varðandi þetta. Ég held að sú atburðarás hafi leitt þetta mál inn í kastljósið og nánast helft þjóðarinnar varð að daglegum þátttakanda í umræðu um málið sem ég lít á sem eitt af burðarákvæðum stjórnarskrárinnar. Í framhaldinu var ákaflega auðvelt að feta sig áfram og tala og rökstyðja rétt þjóðarinnar til þess að taka sjálf ákvörðun um meginefni sem eru til ákvörðunar í samfélaginu.

Hv. þm. Jón Bjarnason tók undir þetta og gat þess jafnframt að líka þyrfti að vera sérstakt ákvæði í stjórnarskránni sem heimilaði tilteknum hluta þingmanna að óska eftir eða krefjast þjóðaratkvæðis, þá væntanlega um lagafrumvarp líkt og menn hafa í Danmörku. Þá vil ég segja eftirfarandi: Ég tel að slíkt ákvæði mætti að ýmsu leyti leggja að jöfnu við málskotsrétt forseta. Ég er þeirrar skoðunar. Ég sé að hv. þm. er mér ósammála um þetta. Víst væri gaman að rökræða við hann síðar um það en þetta er eitt af því sem við þurfum að skoða ákaflega vel. Auðvitað er hugsanlegt að við höfum þetta þrennt til staðar áfram: málskotið, þennan rétt sem hv. þm. gerði að umræðuefni í ræðu sinni og síðan einn almennan farveg líka fyrir tiltekinn minni hluta þjóðarinnar til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hvað sem því líður er ljóst að þetta er eitt af því sem tekur huga manna þegar verið er að ræða endurskoðun á stjórnarskránni. Ég vil túlka það svo að menn eru almennt að verða betur áskynja um nauðsyn þess að skapa umhverfi þar sem beint lýðræði er áhrifaríkara, og hreinlega gildari þáttur í þjóðlífinu en hingað til. Ég ætla ekki að fara út í mikla umræðu um það, frú forseti. Samfylkingin hefur hins vegar haft ákveðið frumkvæði á þessu sviði. Við höfum lagt hér fram nokkrar þingsályktunartillögur og jafnvel frumvörp sem varða beint lýðræði. Það er eftirtektarvert að Samfylkingin mótaði stefnu um íbúalýðræði fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar á flokksstjórnarfundi sem flokkurinn hélt á Akureyri. Í kjölfar þess hefur íbúalýðræði í vaxandi mæli verið tekið upp í sveitarfélögum sem öll eiga það sameiginlegt að Samfylkingin kemur með einhverjum hætti þar að stjórnun.

Ég held þess vegna að það skipti máli að flokkar leggi sig í umræðu um þessi mál og taki ákvörðun. Mér finnst eins og að hér sé enginn ágreiningur um þennan þátt af þeim lýðræðisumbótum sem Samfylkingin hefur verið að reifa hér í dag og á umliðnum árum.

Umbætur á lýðræði og bætt lýðræði, aukinn réttur borgaranna, vernd borgaranna, eru ákaflega snar þáttur af málefnastarfi og stefnu Samfylkingarinnar. Við hófum það mikla starf sem leiddi til þess að við höfum flutt hér á þriðja tug þingmála samanlagt, að ég hygg, sem einhvern veginn tengjast þessum þáttum. Það var áður en sú þunga atburðarás varð sem hér setti samfélagið allt á hvolf í tengslum við fjölmiðlalögin.

Í kjölfar þeirrar atburðarásar hefur hulunni verið svipt af því hvernig ríkisstjórnarflokkarnir vanvirða lýðræðið með margvíslegum hætti og hve nauðsynlegt er fyrir okkur, sem unnum lýðræðinu, að standa vörðinn og standa fast gegn ásælni framkvæmdarvaldsins. Ég hef stundum kallað þetta ráðherraræði og líka kallað þetta rassvasalýðræði. Mér hefur fundist sem staðan á hinu háa Alþingi sé í vaxandi mæli þannig að þingflokkar stjórnarflokkanna séu í helgreipum ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórninni er ráðið af einum eða tveimur mönnum. Það einkenndi atburðarásina sem tengdist fjölmiðalögunum.

Ég þori að fullyrða, frú forseti, að enginn stjórnarliði hafði ríka sannfæringu fyrir þeirri málafylgju sem forustumenn stjórnarflokkanna sýndu í því máli. Þeir tróðu málinu í gegn. Ég efa að þeim hefði tekist það fyrir tíu árum. En þróunin á þeim tíma sem ég hef setið á þingi og í tíð núverandi ríkisstjórnar, frá árinu 1995, hefur verið sú að hér eru menn farnir að valsa um eins og þeir eigi ríkisvaldið. Þeir virða ekki lengur skiptingu þess í mismunandi valdþætti. Það er nauðsynlegt að við alþingismenn stöndum vörð um þá skiptingu. Þessi tillaga er að stórum hluta innlegg í þá umræðu og er að stórum hluta varðstaða af okkar hálfu.